FréttirSkrá á póstlista

06.02.2014

Ágæt aflabrögð frá áramótum

,,Það hefur verið rólegt yfir veiðinni það sem af er þessum túr en aflabrögðin hafa hins vegar verið ágæt frá áramótum. Það hefur reyndar verið meira um frátafir frá veiðum vegna veðurs en við höfum átt að venjast undanfarin ár og við höfum stundum þurft að láta reka á meðan mestu brælurnar hafa gengið yfir.“

Þetta sagði Friðleifur Einarsson, skipstjóri á ísfisktogaranum Ásbirni RE, er rætt var við hann fyrr í dag en Leifur, eins og hann er jafnan nefndur, var þá með skipið að veiðum út af Melsekk, suðvestur af Reykjanesi. Þrír aðrir togarar HB Granda, frystitogararnir Örfirisey RE og Höfrungur III AK, og ísfisktogarinn Otto N. Þorláksson RE voru þá að veiðum í nágrenninu.

Að sögn Leifs hófst veiðiferðin á hádegi sl. þriðjudag.
,,Aflinn er svo til eingöngu gullkarfi og ekkert hefur orðið vart við ufsa. Aflabrögðin eru mjög misjöfn og við höfum verið að fá frá sáralitlum afla og mest upp í sjö tonn í holi. Annars er kominn sá árstími að karfaveiðin ætti að fara að glæðast. Maður vonar einnig að tíðarfarið fari að skána. Það var leiðindabræla þegar við komum út en veðrið er heldur að ganga niður og nú er vindhraðinn kominn niður í 13-15 m/s,“ segir Leifur en að hans sögn er óvíst hvenær skipið verður kallað inn til löndunar. Það gæti orðið nk. laugardag eða jafnvel ekki fyrr en á mánudag.

 

Nýjustu fréttir

Allar fréttir