FréttirSkrá á póstlista

29.01.2014

Tvö skip HB Granda við loðnuleit

Faxi RE og Ingunn AK fóru frá Vopnafirði um kvöldmatarleytið í gær og leita nú að loðnu úti fyrir Norðurlandi. Að sögn Hjalta Einarssonar, sem er skipstjóri á Faxa í þessari ferð, hafði leitin engan árangur borið nú um miðjan dag en leitað verður áfram næstu daga, a.m.k. á meðan veður leyfir.

Segja má að botninn hafi alveg dottið úr loðnuveiðunum um fyrri helgi og síðan þá hafa flest skipanna legið bundin við bryggju. Rannsóknaskipið Árni Friðriksson var við loðnuleit framan af síðustu viku auk nokkurra uppsjávarveiðiskipa en sú leit skilaði engum árangri.

Að sögn Hjalta hafa Faxi og Ingunn leitað skipulega á svæðinu frá Vopnafjarðargrunni og síðan vestur eftir norðurkantinum.

,,Við erum nú komnir á austanverðan Kolbeinseyjarhrygginn og það eina sem lóðað hefur á fram að þessu er dauft ,,ryk“. Hvort það er áta eða loðna er ekki gott að segja en magnið er a.m.k. ekki mikið,“ segir Hjalti en að hans sögn eru skipin nú komin á það svæði þar sem loðnuveiðar hafa oftast verið stundaðar í desembermánuði og í byrjun janúar.

,,Ef ástandið væri eðlilegt þá hefði loðnan verið búin að ganga austur með kantinum og suður með Austfjörðum. Þar hefur hún átt það til að hverfa en svo hefur hún skilað sér upp á grunnin í Lónsbugtinni eða i næsta nagrenni. Þar ætti hún að vera núna,“ segir Hjalti en skipstjórar Faxa og Ingunnar eru í stöðugu sambandi við skipstjóra togara sem eru á veiðum allt frá Vestfjarðamiðum og austur og suður um að SA-landi.

Að sögn Garðars Svavarssonar, deildarstjóra uppsjávarsviðs HB Granda, er afar mikilvægt að finna loðnuna sem fyrst svo hægt sé að ná nýrri mælingu á stofninum í þeirri von að bætt verði við kvótann.

,,Það er öllum ljóst að verulegir hagsmunir eru í húfi. Ákvörðun um áframhaldandi leit verður tekin þegar niðurstaðan úr þessum leiðangri Faxa og Ingunnar liggur fyrir,“ sagði Garðar Svavarsson.

 

Nýjustu fréttir

Allar fréttir