FréttirSkrá á póstlista

23.01.2014

Ótíðin í aðalhlutverki

Þrálát ótíð hefur verið á Vestfjarðamiðum það sem af er ári, nánast stöðug norðaustanátt og bræla. Tíðarfarið hefur sett mark sitt á veiðar togaranna en að sögn Haraldar Árnasonar, skipstjóra á Höfrungi III AK, hafa aflabrögðin verið þokkaleg þegar skipin hafa getað athafnað sig.

,,Við höfum reyndar reynt að sneiða sem mest hjá þorski og ýsu í þessum túr en þess í stað lagt okkur eftir karfa og gulllaxi. Aflinn er ekkert til að kvarta yfir þegar það hefur á annað borð verið veiðiveður,“ segir Haraldur en er tíðindamaður heimasíðunnar náði tali af honum var Höfrungur III að veiðum í norðurkantinum út af Strandagrunni um 40 sjómílur vestur af Kolbeinsey.

,,Þetta er gömul grálúðuslóð og aflinn í fyrstu holunum var ásættanlegur. Það styttist í að við klárum þriðja hollið og þá skýrist betur hvort við reynum frekar við grálúðuna,“ segir Haraldur en þess má geta að fyrr í veiðiferðinni var farið á grálúðuslóðina út af Víkurálnum. Veðurfarið var þá með þeim hætti að lítið var hægt að stunda veiðar.

Veiðiferð Höfrungs III hefur nú staðið í þrjár vikur og samkvæmt áætlun er löndunardagur ákveðinn 29. janúar nk.

 

Nýjustu fréttir

Allar fréttir