FréttirSkrá á póstlista

16.01.2014

Prufutúrinn gekk vonum framar

,,Við erum hæstánægð með árangurinn. Búnaðurinn reyndist framar vonum. Það komu upp smávegis vandkvæði eins og gengur en það er ekkert til að hafa áhyggjur af,“ sagði Eiríkur Ragnarsson, skipstjóri á Helgu Maríu AK, eftir að skipið kom til hafnar í Reykjavík eftir sína fyrstu veiðiferð sem ísfisktogari.

Veiðiferðin hófst sl. föstudagskvöld. Fyrirhugað var að reyna karfa- og ufsaveiðar fyrir SV landi en þar sem veður var slæmt svo til alla veiðiferðina reyndist ekki unnt að fara á miðin út af Reykjanesi.

,,Við vorum mest að veiðum út af Snæfellsjökli. Vindhraðinn var þetta frá 20 og upp í 25 metra á sekúndu en sjólagið í skjóli við jökulinn var mun skárra en utar. Mest vorum við að veiðum á hinni svokölluðu ,,Flugbraut“ sem nær upp að fjórum sjómílum frá landi og aflinn var ágætur. Við vorum með um 60 tonn í túrnum, mest karfa. Undir lok veiðiferðarinnar gekk veðrið heldur niður og þá gátum við sótt dýpra,“ segir Eiríkur.

Að sögn skipstjórans reyndist kælibúnaðurinn og flokkarinn mjög vel og hann segir að einu vandamálin hafi verið í fiskmóttökunni. Þau lýstu sér þannig að í þeim mikla veltingi, sem var í veiðiferðinni, átti fiskurinn til að detta út af færibandinu.

,,Þetta er atriði sem auðvelt er að laga. Þá getur verið að við þurfum að bæta við lausu færibandi í lestina en að öðru leyti gekk allt eins og í sögu,“ segir Eiríkur Ragnarsson en þess má geta í þessari fyrstu ferð voru með í för tveir tæknimenn frá Marel og einn frá 3X Stál. Ekki verður stoppað lengi í landi því næsta veiðiferð er fyrirhuguð á morgun og stefnt er að löndun nk. miðvikudag.

 

Nýjustu fréttir

Allar fréttir