FréttirSkrá á póstlista

14.01.2014

Ingunn AK með fyrstu loðnuna á vertíðinni

Ingunn AK er nú á leið til Vopnafjarðar með um 600 til 630 tonn af loðnu en þetta er fyrsta loðnan sem veiðist á vertíðinni. Aflinn fékkst djúpt norður af landinu á tæpum sólarhringi.

Að sögn Guðlaugs Jónssonar skipstjóra gátu veiðarnar hafist um kl. 18 í gærdag.

,,Við byrjuðum með nót og náðum tveimur köstum og um 250 tonna afla áður en það brældi um miðnættið. Eftir það var ekkert veiðiveður fyrir nótina. Við tókum tvö hol með trollinu og lukum því síðara nú síðdegis. Þá var komin skítabræla og það má reikna með að ferðin til Vopnafjarðar sækist hægt,“ sagði Guðlaugur en miðað við veðurspána reiknar hann með því að koma til Vopnafjarðar laust fyrir hádegi á morgun.

Loðnan, sem Ingunn er með, er átulaus en Guðlaugur segir að það verði að koma í ljós hvort einhver hluti aflans henti til frystingar.

,,Loðnan, sem við fengum í nótina, sunnan við toglínuna er stærri en sú sem við fengum norðar en sú loðna var frekar smá. Heilt yfir var lítið að sjá þennan tíma sem við vorum á miðunum og lítið um lóðningar. Það varð aðeins vart við hvali á veiðislóðinni í gærkvöldi en það sást ekkert til þeirra í dag,“ sagði Guðlaugur Jónsson.

Þegar Ingunn fór áleiðis til Vopnafjarðar upp úr kl. 17 í dag voru alls 11 skip á loðnumiðunum.

 

Nýjustu fréttir

Allar fréttir