FréttirSkrá á póstlista

31.12.2013

Veruleg aukning í þorskveiði ísfisktogaranna

Sturlaugur H. Böðvarsson AK er væntanlegur til hafnar í Reykjavík nú upp úr miðnætti með rúmlega 80 tonna afla úr síðustu veiðiferð ársins sem farin var á Vestfjarðamið. Að sögn Eiriks Jónssonar skipstjóra lætur nærri að þorskafli skipsins sé um 2.300 tonn á árinu. Það er veruleg aukning frá fyrri árum þegar mest áhersla ísfisktogaranna var lögð á veiðar á karfa og ufsa.

,,Við höfum nánast eingöngu stundað veiðar á Vestfjarðamiðum frá því í september sl. og sú breyting hefur orðið á útgerðinni að meiri áhersla er lögð á þorskveiðarnar en áður. Hér áður fyrr vorum við e.t.v. með um 800 til 1.200 tonn af þorski á ári sem nokkurs konar meðafla með karfa- og ufsaveiðum,“ segir Eiríkur.

Mjög góður fiskur

Sturlaugur H. Böðvarsson fór til veiða á miðnætti 26. desember og að sögn Eiríks var kolvitlaust veður fyrsta sólarhringinn.

,,Það var ekki fyrr en um miðnætti sólarhring síðar að vindhraðinn fór niður fyrir 20 m/s og þá gátum við tekið fyrsta holið. Við byrjuðum í kantinum vestur af Halanum og veiddum austur eftir og á laugardeginum vorum við að veiðum á Þverálshorninu. Þorskveiðin var góð og við fengum einnig ýsu með. Síðasta holið tókum við svo út af Snæfellsjökli og fengum þá fjögur til fimm tonn af ufsa og karfa. Allt er þetta mjög góður fiskur og vel á sig kominn,“ sagði Eiríkur Jónsson.

 

Nýjustu fréttir

Allar fréttir