FréttirSkrá á póstlista

30.12.2013

Sameiningin verður vonandi til að efla starfsemina

,,Ég bind miklar vonir við að sameiningin við HB Granda muni verða til þess að efla starfsemina enn frekar. Það stendur ekki annað til. Hér er öflugt fyrirtæki á sínu sviði með frábært starfsfólk en litla yfirbyggingu. Kosturinn við að sameinast HB Granda er m.a. sá að þar er mjög öflugt söluteymi og samlegðaráhrifin munu ótvírætt gagnast þeirri starfsemi sem hér hefur verið rekin.“

Þetta segir Eiríkur Vignisson, framkvæmdastjóri Vignis G. Jónssonar hf. á Akranesi, en nýlega var gengið frá sameiningu þessa gamalgróna fiskvinnslufyrirtækis og HB Granda. Fyrirtækið er heitið eftir stofnandanum og föður Eiríks og upphafið má rekja allt aftur til ársins 1970.

,,Pabbi var þá rækjusölumaður með aðsetur í Lundúnum og fyrirtækið var stofnað gagngert til að vinna og selja íslensk grásleppuhrogn. Til að byrja með var starfsemin uppi á lofti í gamalli prentsmiðju og sennilega fengist slíkt ekki samþykkt í dag,“ segir Eiríkur.
Grásleppuhrognavinnsla var kjölfestan

Fullvinnsla á grásleppuhrognum hófst hérlendis um 1960 þannig að þegar Vignir G. Jónsson stofnaði fyrirtæki sitt var þessi afurð búin að vera á markaði í um áratug. Fyrstu heimildir um útflutning á grásleppuhrognum ná þó aftur til 1928.

,,Starfsemin fluttist fljótlega heim til Íslands og hingað á Akranes og þótt vinnsla á grásleppuhrognum hafi verið kjölfestan í rekstrinum þá var fljótlega farið að vinna önnur hrogn fyrir niðurlagningu, þorskhrogn og loðnuhrogn. Í dag erum við að vinna úr þessum afurðum jöfnum höndum. Ætli magn loðnuhrogna nemi ekki um 600 tonnum á ári, þorskhrognin um 400 tonnum og magn grásleppuhrogna er um 400 til 500 tonn á ári,“ segir Eiríkur en hann leynir því ekki að samkeppnin um hráefnið sé mikil. Það sé reyndar áramunur á því hve mikill slagurinn er.
Samfelld vinnsla allt árið

Vignir G. Jónsson hf. á Akranesi hefur nú yfir að ráða um 3.500 fermetra húsnæði og er það hvort tveggja eigið húsnæði og leiguhúsnæði. Starfsmenn eru rúmlega 40 talsins og eru þá ótaldir skólanemendur sem oftar en ekki hlaupa undir bagga á álagstímum í vinnslunni.

,,Hér er samfelld vinnsla allt árið. Það koma vissulega ákveðnir álagstoppar. Loðnuhrognatíminn er í febrúar og mars og mestar annir hvað varðar grásleppuhrognin eru fyrir jólin. Markaðssvæðin eru mjög víða. Grásleppuhrognin fara mest til landa í Norður og Mið-Evrópu og svo erum við farin að frysta grásleppu fyrir vaxandi markað í Kína. Loðnuhrognin eru aðallega seld til Bandaríkjanna sem og á Evrópumarkað en þar er einnig okkar mikilvægasti markaður fyrir þorskhrogn,“ segir Eiríkur en í máli hans kemur fram að mest af þorskhrognavinnslunni sé svokölluð forvinnsla. Kaupendur afurðarinnar sjái svo um fullvinnslu og pökkun hver á sínu markaðssvæði.

Svo sem kunnugt er þá hafa verið sveiflur í verði og sölu á söltuðum grásleppuhrognum í áranna rás. Eiríkur segir að nú séu íslenskir grásleppukarlar og framleiðendur í neðri hluta verðsveiflunnar.

,,Framboðið ræður einfaldlega öllu um verðið á afurðinni. Flóknara er það ekki. Ef mikið veiðist þá lækkar verðið „Lögmálið um framboð og eftirspurn ræður hér eins og annars staðar í viðskiptum,“ segir Eiríkur Vignisson.

 

Nýjustu fréttir

Allar fréttir