FréttirSkrá á póstlista

19.12.2013

Laugafiskur - gamalgróið fyrirtæki á sviði fiskþurrkunar

Í síðasta mánuði staðfesti hluthafafundur í HB Granda samrunaferli félagsins og Laugafisks ehf. á Akranesi. Miðast samruninn við 1. júlí sl. en frá og með þeim degi hefur HB Grandi yfirtekið allar skuldbindingar Laugafisks. Fyrri eigendur Laugafisks fá greiðslu í hlutabréfum í HB Granda fyrir eignarhlut sinn. Laugafiskur er gamalgróið fyrirtæki á sviði þurrkunar á fiskafurðum fyrir Nígeríumarkað en upphafið að starfseminni má rekja allt aftur til ársins 1980 er Þorsteinn Ingason stofnaði fyrirtækið Stokkfisk á Laugum í Reykjadal.

Að sögn Sighvats Sigurðssonar, vinnslustjóra Laugafisks, var Þorsteinn brautryðjandi hvað varðar inniþurrkun á fiskhausum hérlendis. Starfseminni var valinn staður á Laugum í Reykjadal í Suður-Þingeyjarsýslu þar sem góður aðgangur var að heitu vatni. Auk heimamanna komu sjávarútvegsfyrirtæki eins og Útgerðarfélag Akureyringa (ÚA) að rekstri Stokkfisks en nafn félagsins breyttist í Laugafisk árið 1988.

,,Það var svo laust fyrir sl. aldamót að Laugafiskur komst alfarið í eigu ÚA og um leið var allur tækjabúnaður endurnýjaður. Hér á Akranesi hafði Þorsteinn hafið fiskþurrkun í samvinnu við fiskvinnslufyrirtækið Haförninn á árunum 1987 til 1988 en sá rekstur komst í eigu Laugafisks, þ.e.a.s. ÚA, rúmum áratug síðar,“ segir Sighvatur en svo sem kunnugt er þá keypti Brim ehf. ÚA í byrjun síðasta áratugar.

Félagið var síðan selt til Samherja en Brim hélt Laugafiski á Akranesi utan við þá sölu þótt þurrkunin á Laugum fylgdi með í kaupunum. Brim sá síðan um reksturinn þar til að ákveðið var að taka tilboði HB Granda um kaup á Laugafiski fyrr á þessu ári.

Bráðvantar stærra húsnæði

Sighvatur segir að starfsmenn Laugafisks séu um 25 til 26 talsins og þar af séu tveir á skrifstofu fyrirtækisins í Reykjavík. Laugafiskur hefur yfir að ráða tveimur húsum á Akranesi fyrir vinnsluna og eru þau alls um 2.000 fermetrar að flatarmáli. Stærra vinnsluhúsið, sem hýsir hráefnismóttöku, vinnslulínur og þurrklefa fyrir forþurrkun, var byggt árið 2001 en svokölluð eftirþurrkun og pökkun á afurðum fer fram í eldra húsnæði sem ekki er langt undan.

,,Staðreyndin er sú að okkur bráðvantar mun stærra húsnæði og það var alltaf hugmyndin að byggt yrði við stærra húsnæðið þannig að vinnslan færi öll fram á sama stað. Okkur vantar rými fyrir eftirþurrkunina og það er töluvert óhagræði af því að þurfa að aka afurðunum á milli húsa í stað þess að vera með eina samfellda vinnslulínu í sama húsinu,“ segir Sighvatur.

Stór markaður í Nígeríu

Svo sem að framan greinir var hvatinn að stofnun fyrirtækisins þurrkun á þorskhausum fyrir Nígeríumarkaðinn en að sögn Sighvats hefur starfsemin undið upp á sig og nú eru einnig þurrkaðir þorskhryggir og ýmiss konar magur fiskur fyrir sama markaðssvæði.

,,Nígeríumarkaður er mjög stór enda er íbúafjöldinn um 160 milljónir manns. Í landinu eru mjög mörg þjóðarbrot eða þjóðflokkar og þar af er bara einn af þeim þremur stærstu sem alinn er upp við þá hefð að borða þurrkaðan fisk. Það má segja að svæðið, sem við seljum afurðirnar til, sé það sem á sínum tíma nefndist Biafra. Markaðurinn fyrir þurrkaðan fisk í Nígeríu er nokkuð stöðugur en þar hafa þó orðið sveiflur eins og gengur og gerist. Markaðurinn lokaðist alveg á árunum 1983 til 1984 og var svo í lægð fram til ársins 1995 en þá varð ákveðin uppsveifla. Norðmenn sjá Nígeríumarkaði að mestu leyti fyrir hinni hefðbundnu skreið núorðið en Íslendingar eru hins vegar öflugir í framleiðslu á inniþurrkuðum hausum og hryggjum. Þá höfum við einnig þurrkað svokallaðar kótilettur úr fiski fyrir þennan markað en þar er um að ræða heilan fisk sem sneiddur er niður í um þriggja sentímetra sneiðar.“

Vinnsluleyfið takmarkað við 170 tonn á viku

Árlega er unnið úr um 6.000 tonnum af fiski á vegum Laugafisks. Rými til eftirþurrkunar hefur takmarkað framleiðslugetuna en Sighvatur segir að þó hægt væri að auka hana þá breyti það engu um starfsleyfið sem er upp á 170 tonn af blautverkuðum fiski á viku.

,,Ég hef aldrei almennilega áttað mig á því hvers vegna starfsleyfið er miðað við þessa einu tölu. Það ætti að vera allra hagur, fyrirtækisins, starfsfólksins og sveitarfélagsins, að hér sé sem allra mest vinna,“ segir Sighvatur.

Vinnsluferlið hjá Laugafiski tekur ekki langan tíma. Tekið er á móti fiskhausum, hryggjum og fleiru sem til fellur. Við komu er hráefnið þvegið og sett í kæligeymslu. Þaðan fer það síðan á vinnslulínur og er sett á þurrkgrindur fyrir forþurrkun sem tekur tvo daga í klefum. Að loknu því ferli er búið að ná 70% vatnsinnihalds úr afurðunum. Eftirþurrkunin tekur svo þrjá daga og endanleg afurð inniheldur aðeins 13-15% vökva við pökkun.
Sighvatur segir að starfsmenn fyrirtækisins bindi miklar vonir við aðkomu HB Granda að rekstrinum og að með því verði starfsemin aukin.

,,Við höfum átt mjög gott samstarf við HB Granda á liðnum árum og um 60% af okkar hráefni hefur komið frá fyrirtækinu. Annað kemur frá þremur til fjórum öðrum fyrirtækjum en það er í þessu eins og öðru og það er gríðarleg samkeppni um hráefnið. Það eru sennilega um 20 fyrirtæki í landinu sem stunda inniþurrkun á sömu aðurðum og við og menn verða að hafa öll spjót úti til að fá hráefni til vinnslunnar,“ segir Sighvatur Sigurðsson.

 

Nýjustu fréttir

Allar fréttir