FréttirSkrá á póstlista

17.12.2013

Þúfa vígð í vikulokin

Umhverfislistaverkið Þúfa eftir Ólöfu Nordal verður formlega vígt nk. laugardag kl. 15:00 Verkið er afrakstur samkeppni sem HB Grandi efndi til í samvinnu við Samband íslenskra myndlistamanna (SÍM) og Faxaflóahafnir.

Myndverkið Þúfa, sem stendur við vestanverða innsiglinguna að Reykjavíkurhöfn, gegnt Hörpu, er grasi vaxinn hóll með steinþrepum sem leiða upp á topp hólsins. Þar er lítill fiskhjallur sem gert ráð fyrir að þurrkaður verði hákarl og annar fiskur. Hóllinn er 26 metrar í þvermál og 8 metra hár. Í verkið fóru um 2400 m3 af jarðefni og efnismagnið vegur um 4.500 tonn þegar allt er talið.

Vígsluathöfnin hefst eins og fyrr segir kl. 15:00 með ávarpi Vilhjálms Vilhjálmssonar, forstjóra HB Granda. Auk Vilhjálms munu Ólöf Nordal myndlistarmaður og Hjámar Sveinsson formaður stjórnar Faxaflóahafna segja nokkur orð. Jón Gnarr borgarstjóri Reykjavíkur mun vígja listaverkið.

Að lokinni vígslunni verður boðið upp á söng, rímnaflutning og þjóðlegar veitingar fyrir börn og fullorðna í forrými Ísbjarnarins. Athöfnin er öllum opin.

Fjallað hefur verið ítarlega um samkeppnina um gerð umhverfislistaverksins á Norðurgarði hér á heimasíðu HB Granda og það sem gerst hefur síðan Ólöf Nordal valdist til verksins.

,,Að byggja svona hól í þessari stærð er stærra verkefni en maður heldur í fyrstu. Það tók dágóðan tíma að hanna uppbygginguna á hólnum og reikna út þyngd hans og umfang og áhrif hans á umhverfið,“ sagði Ólöf í samtali við heimasíðuna á haustmánuðum en eiginlegar framkvæmdir hófust þegar komið var fram í júlímánuð sl.

,,Vinnuvélar komu þá á svæðið og var kjarni ,,þúfunnar“ reistur úr grófum jarðvegi og stóru grjóti. Síðan var beðið í nokkrar vikur og hrúgan látin taka sig og síga. Að því loknu var hægt að grófmóta form verksins og móta svæðið í kring. Þúfan sjálf verður alþakin grasi sem og allt svæðið í kring. Vegna mikils bratta neðst í hólnum hefur verið ákveðið að hlaða torfi og grjóti í strenghleðslu, sem er aldagömul aðferð til að byggja upp grasvegg. Þá er lagt grjót og torf á víxl og loks er hleðslan þakin jarðvegi sem gras vex svo í,“ sagði Ólöf Nordal.

Öll jarðvinna við gerð myndverksins var unnin af starfsmönnum ÍAV. Um útreikninga og verkhönnun sá VSÓ og landslagshönnun var í höndum Emils Gunnars Guðmundsson hjá Suðaustanátta. Guðjón Stefán Kristinsson og starfsmenn hans sáu um alla torfhleðslu, steinhleðslu og þökulögn og hófst það verk í byrjun októbermánaðar.

 

Nýjustu fréttir

Allar fréttir