FréttirSkrá á póstlista

11.12.2013

Síldarleit í Breiðafirði skilaði engum árangri

Faxi RE er nú á leið til Reykjavíkur eftir að hafa leitað að síld í Breiðafirði sl. þrjá daga. Að sögn Alberts Sveinssonar skipstjóra skilaði leitin engum árangri og nótinni var aldrei kastað í túrnum.

,,Við höfðu fréttir af því að skipverjar á Álsey VE hefði orðið varir við álitlegar lóðningar á dögunum og þar sem við vorum í höfn á Akranesi var ákveðið að kanna málið. Við fórum um sundin við Stykkishólm, í utanverðan Kolgrafafjörðinn og Grundarfjörð þar sem við ákváðum að láta gott heita. Auk okkar var Bjarni Ólafsson AK á svæðinu og Hákon EA kom þangað í einn dag,“ segir Albert.

Í Reykjavík verður tekin stærri síldarnót um borð og síðan er ferðinni heitið austur í Breiðamerkurdjúp þar sem þokkalegasta síldveiði hefur verið síðustu daga. Að sögn Alberts er Lundey NS nú á leiðinni til Vopnafjarðar með ágætan afla úr Breiðamerkurdjúpi. Hvenær Faxi verður kominn á miðin er erfitt að segja til um á þessari stundu. Spáin fyrir suðurströnd landsins er ekki góð næstu dagana, sunnan og suðaustan hvassviðri, og sagði Albert að ekki yrði farið austur fyrr en útlit væri fyrir að viðraði til veiða.

 

Nýjustu fréttir

Allar fréttir