FréttirSkrá á póstlista

06.12.2013

Áhugaverðar nýjungar í veiðarfæragerð kynntar í Hirtshals

,,Þetta hefur verið einkar áhugaverð og fræðandi heimsókn. Það er ekki síst þróunin í gerð flottrolla og flottrollshlera sem vakið hefur áhuga okkar og sömuleiðis ný gerð trollpoka sem menn binda miklar vonir við.“

Þetta segir Steindór Sverrisson, útgerðarstjóri frystitogara HB Granda, en hann er nú staddur í Danmörku ásamt átta öðrum starfsmönnum félagsins með það að markmiði að kynna sér nýjungar í veiðafæragerð í tilraunatanknum í sjávarútvegsmiðstöðinni í Hirtshals. Þeir eru hluti af rúmlega 70 manna hópi skipstjórnarmanna og fulltrúa útgerðarfélaga sem að þessu sinni tekur þátt í árlegri kynningarferð Hampiðjunnar og samstarfsaðila til Hirtshals.

Að sögn Steindórs er stöðug þróun í gerð veiðarfæra og hann segir það jákvætt að eiga kost á að sjá virkni þeirra við sem raunverulegastar aðstæður.

,,Það er sömuleiðis mikill kostur að hér eru samankomnir menn sem hafa mikla þekkingu á togveiðum og þótt áherslurnar kunni að vera mismunandi þá getum við borið saman bækur okkar og deilt reynslunni. Meðal þess, sem menn hafa mikinn áhuga á, eru flottrollshlerarnir frá Thyborön sem farið er að nota á botntrollsveiðum með góðum árangri. Mér skilst reyndar að skip, sem gert er út frá Argentínu og veiðir með átta mismunandi trollum, allt frá botni og upp að yfirborði, noti sömu toghlerana við veiðarnar. Þá eru til flottroll sem hægt er að veiða með allt niður undir botn og menn eru sammála um að þróunin í gerð þessara veiðarfæra sé vel þess virði að fylgst sé náið með henni. Af öðru áhugaverðu má svo nefna svokallaðan fjögurra byrða trollpoka. Það eru bundnar miklar vonir við að hann létti þrýstingi af fiski og stuðli þannig að bættri meðferð aflans og auknum gæðum afurðanna,“ segir Steindór Sverrisson.

 

Nýjustu fréttir

Allar fréttir