FréttirSkrá á póstlista

27.11.2013

Ágætis aflabrögð

Frystitogarinn Örfirisey RE er nú að veiðum á Vestfjarðamiðum og hefur veiðiferðin staðið í tæpa viku. Í veiðiferðinni á undan var aflinn rúm 600 tonn af fiski upp úr sjó og auk hausaðs og heilfrysts fisks og frystra flaka var skipið með um 100 tonn af hausum sem allir nýtast til þurrkunar í landi eða útflutnings.

Símon Jónsson var skipstjóri í veiðiferðinni og hann segir að þorsk- og ufsahausarnir fari í þurrkun en eru einnig seldir frosnir úr landi. Karfahausarnir eru hins vegar seldir frystir úr landi og segir Símon að þeir séu notaðir sem beita í krabbagildrum.

Víða var farið í umræddri veiðiferð sem stóð í um fjórar vikur.

,,Við byrjuðum á karfaveiðum á suðvesturmiðum en síðan var farið norður og austur. Annar afli var mest þorskur og ufsi og það hefur bara gengið ágætlega að eiga við ufsann og þá einkum á Vestfjarðamiðum,“ segir Símon en hann vill ekki gera mikið úr því að veðráttan í nóvember hafi verið verri en menn eigi að venjast á þessum árstíma.

,,Lægðirnar koma og fara og vissulega kemur fyrir að menn þurfi að hætta veiðum og leita vars í einhvern tíma. En þetta er ekkert verra tíðarfar en við erum vanir í nóvembermánuði,“ sagði Símon Jónsson.

Nýjustu fréttir

Allar fréttir