FréttirSkrá á póstlista

22.11.2013

Helga María AK á heimleið eftir breytingar í Póllandi

Ísfisktogarinn Helga María AK er nú á heimleið eftir umfangsmiklar breytingar og endurbætur sem gerðar voru á skipinu í Alkor skipasmíðastöðinni í Gdansk í Póllandi. Er reiknað með því að heimsiglingin taki rúma fimm sólarhringa þannig að ef allt gengur að óskum er von á Helgu Maríu til hafnar í Reykjavík um miðja næstu viku.

Stjórn HB Granda tók þá ákvörðun fyrr á þessu ári að láta breyta Helgu Maríu úr frystitogara í ísfisktogara og var samið við Alkor skipasmíðastöðin um verkið. Var skipið komið til Póllands um mánaðamótin júní og júlí.

Að sögn Gísla Jónmundssonar, skipaeftirlitsmanns HB Granda, sem haft hefur eftirlit með framkvæmd verksins í Póllandi fyrir félagið eru breytingarnar á Helgu Maríu umfangsmiklar og þótt skipið sé farið frá Póllandi þá muni enn nokkur tími líða þar til það kemst á veiðar. Helgast það m.a. af því að eftir á að setja niður nýtt vinnsludekk í skipið. Það verk munu starfsmenn 3X Stáls (3X Technology) sjá um en að auki koma fleiri fyrirtæki að lokafrágangnum á Helgu Maríu.

Svo vikið sé að breytingunum í Póllandi þá segir Gísli að það helsta sem gert hafi verið við skipið sé að frystilestinni hafi verið breytt í ísfisklest.

,,Lestin var stækkuð með því að frystivélarými var fjarlægt og sömuleiðis tveir síðutankar. Lestarlúgan var færð út í síðu, lestin var öll klædd upp á nýtt og komið fyrir nýju kælikerfi. Allur búnaður á millidekki var tekinn úr skipinu og allar klæðningar fjarlægðar. Rýmið á millidekkinu var allt sandblásið, skipt var um rennusteina og síðan var það klætt upp á nýtt. Fiskimóttakan var klædd með ryðfríum plötum og sett var upp nýtt, ryðfrítt móttökuþil. Nýrri stakkageymslu með öllum búnaði var komið fyrir og einnig var kaffi- og þvottaherbergið endurnýjað. Skipt var um efra dekkið frá skutrennu fram fyrir gömlu lestarlúguna. Lestarlúgurnar voru færðar út í síðu og hluta af eldhúsi þurfti að fjarlægja vegna þeirrar færslu. Fyrir vikið þurfti að innrétta nýtt eldhús með tilheyrandi breytingum á borðsal. Svokallaðir ísgálgar voru fjarlægðir og toggálgi var styrktur til að geta borið uppi togblakkirnar. Einnig var skipt um skutgaflana og stálpötur þar sem þess þurfti. Bæði skuthlið og fiskilúga voru endurnýjaðar. Vatnstankarnir voru sandblásnir og málaðir. Skipið var reyndar allt sandblásið frá masturstoppum niður í kjöl. Öll lágþrýstispilrör voru tekin niður, sandblásin og máluð og háþrýstirör á dekki voru öll endurnýjuð,“ segir Gísli Jónmundsson en í máli hans kemur fram að margt fleira, sem of langt mál væri að telja upp hér, hafi verið gert en hann vilji þó nefna til viðbótar ýmsar lagfæringar sem gerðar voru á íbúðum skipverja. Eins hafi allar rúður verið teknar úr brúnni og gluggakarmarnir sandblásnir og sinkaðir áður en rúðunum var komið fyrir að nýju.

 

Nýjustu fréttir

Allar fréttir