FréttirSkrá á póstlista

20.11.2013

Góð síldveiði á Grundarfirði

,,Veiðin hefur verið mjög dagaskipt. Fyrsta daginn fengum við engan afla, 400 tonn þann næsta, ekkert í gær og svo er búin að vera fínasta veiði í dag. Aflinn í tveimur köstum inni á Grundarfirði var um 700 tonn og þar af miðluðum við um 100 tonnum til annars skips. Við erum því með um 1.000 tonna afla og reiknum með að verða á Vopnafirði annað kvöld.“

Þetta sagði Albert Sveinsson, skipstjóri á Faxa RE, í samtali við heimasíðu HB Granda nú um miðjan dag en veiðum var þá lokið og stefnan sett á Vopnafjörð.

Að sögn Alberts var skipið komið á miðin sl. sunnudag og hófst leitin að síld í veiðanlegu magni í Urthvalafirði og Kolgrafafirði.

,,Við urðum ekki varir við neinar almennilegar lóðningar fyrr en á mánudag en þá fengum við 400 tonn af síld inni á Kolgrafafirði. Í gær vorum við inni á Grundarfirði og þá sást ekkert til síldar. Sennilega hefði ekkert þýtt að reyna veiðar þó svo hefði verið, því það var vitlaust veður mest allan daginn. Í morgun var hins vegar logn og blíða, góðar lóðningar og fínn afli,“ sagði Albert Sveinsson.

Er Faxi hélt frá Grundarfirði voru fjögur skip þar enn að veiðum en eitt var á leið til hafnar, líkt og Faxi. Í dag varð vart við einhverjar lóðningar á sundunum við Stykkishólm, þar sem helsta veiðisvæðið hefur verið undanfarin ár, og þá hafa menn reynt fyrir sér í nágrenni Breiðamerkurdýpis fyrir austan. Þar hefur fengist síld en hún er í smærra lagi, a.m.k. enn sem komið er.

 

Nýjustu fréttir

Allar fréttir