FréttirSkrá á póstlista

19.11.2013

Vinnsla hafin að nýju á Vopnafirði

Vinnsla á síld hófst að nýju í uppsjávarfrystihúsi HB Granda á Vopnafirði aðfararnótt sl. sunnudags eftir um þriggja vikna vinnsluhlé. Að sögn Magnúsar Róbertssonar vinnslustjóra kom Ingunn AK með um 1.050 tonna síldarafla til Vopnafjarðar um miðnætti og skömmu síðar gat vinnsla hafist.

,,Allur aflinn er unninn í samflök og við lukum við að vinna afla Ingunnar snemma í morgun. Nú bíðum við þess bara að fá næsta farm,“ segir Magnús en þess má geta að afli Ingunnar var þriðji farmurinn af íslenskri sumargotssíld sem berst til Vopnafjarðar á vertíðinni.

Vertíðin í Breiðafirði, þar sem síldin hefur haldið sig undanfarin ár, hefur gengið erfiðlega í vetur. Veiðar skipa HB Granda hófust seint í október en mikil ótíð framan af þessum nóvembermánuði varð þess valdandi að skipin voru dögum saman í höfn. Þegar veiðar gátu hafist að nýju var síldin hins vegar horfin af veiðisvæðinu í sundunum við Stykkishólm. Undanfarna daga hefur veiðin verið innar í Breiðafirði, nánar tiltekið í Urthvalafirði og Kolgrafafirði og nú eru nokkur skip að veiðum á Grundarfirði. Meðal þeirra er Faxi RE. Ingunn er á leiðinni á miðin að nýju og Lundey NS er á austurleið með um 300 tonna afla.

 

Nýjustu fréttir

Allar fréttir