FréttirSkrá á póstlista

15.11.2013

Síldin lætur bíða eftir sér

Eftir stöðugar brælur lengst af þessum mánuði eru síldveiðar á Breiðafirði hafnar að nýju en aflabrögðin hafa verið mjög gloppótt og lítið hefur orðið vart við síld í veiðanlegu magni. Eitthvað hafa þó aflabrögðin skánað í dag og athygli manna beinist nú helst að veiðisvæðinu á Kolgrafarfirði þar sem nokkur skip hafa fengið þokkalegan afla.

Uppsjávarveiðiskip HB Granda voru í höfn á Akranesi og í Reykjavík frá því snemma í síðustu viku þar til að Lundey NS fór til veiða sl. miðvikudag. Skipið var statt á Kolgrafarfirði er rætt var við Arnþór Hjörleifsson skipstjóra síðdegis í dag og sagði hann að lítið hefði gengið það sem af er veiðiferðinni.

,,Við byrjuðum að leita fyrir okkur í Kolluálnum og síðan í sundunum við Stykkishólm en þar er ekkert að sjá. Það er helst að einhver tíðindi hafi verið að berast frá Kolgrafarfirði og þar hafa stöku skip fengið þokkalegan afla. Við tókum eitt kast áðan en ,,búmmuðum“ en vonandi tekst betur til næst. Aðstæður eru erfiðar, mikið grjót í botni fjarðarins og spáin fyrir morgundaginn lofar ekki góðu, 20-25 metrum á sekúndu, en eftir það á veðrið að ganga niður,“ sagði Arnþór Hjörleifsson.

Ingunn AK fór til veiða í gærkvöldi og fékk um 100 tonna kast í morgun og 200 tonna kast fyrr í dag á Kolgrafarfirði. Guðlaugur Jónsson skipstjóri segir að meira sé að sjá á mælum nú síðdegis en hvort síldin sé loksins farin að skila sér í einhverjum mæli á miðin verði bara að koma í ljós.

 

Nýjustu fréttir

Allar fréttir