FréttirSkrá á póstlista

07.11.2013

Þerney RE að ljúka veiðum í rússnesku lögsögunni

Senn líður að því að áhöfnin á Þerney RE ljúki við að veiða kvóta HB Granda í rússneskri lögsögu í Barentshafi á þessu ári. Kvóti félagsins er um 680 tonn af þorski en veiða má ýsu og fleiri tegundir sem aukaafla að ákveðnu hámarki. Veiðiferðin, sem nú stendur yfir, hófst 24. október sl. er skipt var um áhöfn í Noregi en veiðarnar í rússnesku lögsögunni hófust mánuði fyrr.

Ægir Franzson er skipstjóri á Þerney í síðari hluta veiðiferðarinnar og er tíðindamaður heimasíðunnar náði tali af honum var skipið að veiðum á svokölluðum Gæsabakka sem er vestan við Novaja Zemlja eyjaklasann í Norður-Íshafi. Að sögn Ægis hefur verið leiðindaveður á miðunum nánast allan tímann en það sé fyrst nú að komin sé blíða og aflabrögðin hafi glæðst til muna.

,,Þetta var tregt til að byrja með en veiðin hefur farið vaxandi og nú síðustu tvo sólarhringana má segja að við höfum náð að halda uppi fullum afköstum í vinnslunni. Aflinn er mest þorskur en þó er ýsubland með. Þetta er góður fiskur og þá sérstaklega úti í köntunum en smærri á grunnslóðinni,“ segir Ægir en er rætt var við hann var Þerney eina íslenska skipið sem var að veiðum í rússnesku lögsögunni.

,,Það er þó nokkuð af rússneskum togurum hér að veiðum og einn færeyskur. Mér skilst að eitt íslenskt skip og tvö færeysk séu á leiðinni á miðin. Það vantar ekki mikið upp á að við náum að veiða kvótann og þegar þar að kemur höldum við heim og ljúkum veiðiferðinni á heimamiðum. Ætli við náum ekki að verða komnir til hafnar í Reykjavík fyrir mánaðamót,“ sagði Ægir Franzson.

Á undanförnum árum hefur Venus HF séð um veiðar á kvóta HB Granda í norskri og rússneski lögsögu. Því skipi hefur nú verið lagt og tók áhöfnin á Þerney við keflinu. Skipstjórarnir á Þerney eru ekki óvanir veiðum í Barentshafi því þeir voru við stjórn á Snorra Sturlusyni RE sem stundaði veiðar á þessum slóðum þar til fyrir 12 árum er skipið var selt til Vestmannaeyja.

 

Nýjustu fréttir

Allar fréttir