FréttirSkrá á póstlista

25.10.2013

Ingunn AK á leið til Vopnafjarðar með fyrsta síldarfarminn á haustvertíðinni

Ingunn AK er nú á leið til Vopnafjarðar með 900 til 1.000 tonna síldarafla sem fékkst í Breiðafirði í gær. Að sögn Guðlaugs Jónssonar skipstjóra er áætlaður siglingartími um 40 tímar og því er ekki von á skipinu til Vopnafjarðar fyrr en í hádeginu á morgun.

,,Við tókum nótina í Reykjavík sl. miðvikudag og hófum veiðar í Breiðafirðinum í gærmorgun. Það var ekki mikið að sjá og við fengum ekkert í fyrsta kastinu. Svo fengum við 450 til 500 tonna kast, síðan nokkur tonn í því næsta í síðasta kastinu var aflinn um 1.000 tonn,“ segir Guðlaugur en þess má geta að um helmingi þess afla var miðlað um borð í Beiti NK, sem var eina uppsjávarveiðiskipið á miðunum auk Ingunnar.

Að sögn Guðlaugs var veiðisvæðið í sundunum við Hrútey. Hann segir síldina vera af ágætri stærð og meðalvigtin sé á bilinu 320 til 340 grömm.

Veiðar á íslensku sumargotssíldinni hófust fyrir skömmu og enn sem komið er hafa tiltölulega fá skip farið til veiða. Ingunn varð fyrst skipa HB Granda til að hefja veiðarnar en Lundey NS fer til veiða í dag.

 

Nýjustu fréttir

Allar fréttir