FréttirSkrá á póstlista

24.10.2013

Þrír nýir starfsmenn

Þrír nýir starfsmenn hafa verið ráðnir til starfa hjá HB Granda. Þeir eru Ingólfur Steingrímsson, sem verður forstöðumaður innkaupa og rekstrareftirlits, Jón Ingi Ingimarsson, sem verður sölustjóri fyrir uppsjávarafurðir, og Gísli Kristjánsson, sem sinna mun ýmsum sérverkefnum fyrir HB Granda, s.s. ferlagreiningu, bestun og flutningatækni (logistic).

Ingólfur Steingrímsson

Ingólfur Steingrímsson mun starfa á fjármálasviði HB Granda og í hans verkahring verður rekstrareftirlit, innkaup og öryggismál. Ingólfur býr að góðri reynslu úr atvinnulífinu og nefna má að hann hefur m.a. starfað á endurskoðunarskrifstofu, hjá Olíufélaginu hf. sem deildarstjóri rekstraeftirlits og síðar sem deildarstjóri reikningshalds og eftirlits hjá N1. Síðustu tvö ár starfaði hann sem fjármálastjóri Festa lífeyrissjóðs. Hann hefur einnig starfað sjálfstætt við bókhald og framtalsgerð. Ingólfur er með B.Sc. gráðu í viðskiptafræði frá Háskólanum á Bifröst og lauk síðan meistaragráðu í alþjóðaviðskiptum frá sama skóla.

Jón Ingi Ingimarsson

Jón Ingi Ingimarsson verður sölustjóri fyrir uppsjávarafurðir og mun hefja störf í lok nóvember. Hann er með BS próf í matvælafræði og MS próf í sjávarútvegsfræðum frá Háskóla Íslands. Lokaritgerð hans þar fjallaði um veiðar, vinnslu og nýtingu á kolmunna til manneldis. Frá árinu 2005 hefur Jón Ingi lengst af verið framleiðslustjóri fóðurverksmiðju Líflands ehf.

Gísli Kristjánsson

Gísli Kristjánsson, sem er 25 ára gamall, er með MS próf í iðnaðarverkfræði frá Verkfræði-og raunvísindadeild Háskóla Íslands. Lokaverkefni hans þar var „Þurrkun á saltfiski – samanburður mismunandi aðferða og tegunda.“ Gísli hefur sinnt ýmsum störfum. Hann hefur verið aðstoðarkennari í rekstrarfræði og iðnaðartölfræði við Véla- og iðnaðarverkfræðideild Háskóla Íslands og auk þess unnið að ýmsum verkefnum fyrir Hraðfrystihúsið Gunnvöru hf., Matís ohf. og Icelandic Japan K.K. Tokyo í Japan.

 

 

 

Nýjustu fréttir

Allar fréttir