FréttirSkrá á póstlista

16.10.2013

Ágæt þorskveiði en ufsinn farinn af veiðislóðinni

Ísfisktogarinn Sturlaugur H. Böðvarsson AK hefur síðustu vikuna verið að veiðum á Vestfjarðamiðum og að sögn Eiríks Jónssonar skipstjóra hefur aflinn verið ágætur. Farið var inn til millilöndunar á Ísafirði sl. sunnudag með um 90 tonn af þorski og nokkuð af karfa. Síðan var farið til veiða að nýju og var síðasta holið tekið fyrr í dag. Togarinn er nú á leið til heimahafnar og reiknaðist skipstjóranum til að heildaraflinn í túrnum væri um 150 tonn af þorski og um 20 til 25 tonn af karfa.

Veiðiferðin hófst síðdegis á miðvikudag í síðustu viku en þá um morguninn hafði togarinn komið til hafnar í Reykjavík með karfa og ufsa.

,,Við hófum veiðarnar í Víkurálnum og höfum verið að veiðum þar, á Halanum og í kantinum þar fyrir utan og allt austur á Kögurgrunn. Það er alls staðar hægt að fá þorsk á þessu svæði en ufsinn virðist vera farinn af veiðislóðinni. Hér var mokveiði á ufsa í sumar og langt fram eftir hausti en það hefur verið að draga jafnt og þétt úr ufsaveiðinni og eftir þriggja daga sunnanbrælu á dögunum tók alveg fyrir hana. Það er alltaf hægt að fá karfa á Halanum en við höfum einbeitt okkur að þorskveiðunum og lítið hugsað um aðrar tegundir að þessu sinni,“ segir Eiríkur.

Að sögn skipstjórans hefur það gefið góða raun að lengja veiðiferðirnar þegar farið er til veiða á Vestfjarðamiðum og millilanda afla frekar á Ísafirði en sigla heim með fullfermi eftir færri daga á veiðum.

,,Olíukostnaðurinn er það mikill að það borgar sig ekki lengur að skjótast norður á Vestfjarðamið til að ná í 30 til 40 tonn af þorski eins og við gerðum hér áður fyrr,“ segir Eiríkur Jónsson.

 

Nýjustu fréttir

Allar fréttir