FréttirSkrá á póstlista

09.10.2013

Málþing til minningar um Árna Vilhjálmsson

Málþing til minningar um Árna Vilhjálmsson, prófessor og fyrrverandi stjórnarformann HB Granda, sem lést 5. mars 2013, verður haldið í hátíðasal Háskóla Íslands n.k. mánudag kl. 17–19. Að málþinginu standa félagsvísindasvið Háskóla Íslands og Rannsóknaráð um nýsköpun og hagvöxt (RNH). Við þetta tækifæri verður afhjúpuð brjóstmynd af Árna, sem komið verður fyrir í Odda, húsi félagsvísindasviðs HÍ.

Brjóstmyndin er gjöf Hvals hf. til HÍ en Árni heitinn rak Hval um árabil með félaga sínum, Kristjáni Loftssyni. Ekkja Árna, Ingibjörg Björnsdóttir, mun afhjúpa brjóstmyndina, sem er eftir Gerði Gunnarsdóttur myndhöggvara.

Heiti málþingsins er Kvótakerfi og veiðigjald. Hvalur og Landsbanki Íslands eru bakhjarlar málþingsins en Árni heitinn sat um árabil í bankaráði Landsbankans.

Í tilkynningu frá skipuleggjendum segir m.a.:

Árni var virtur og vinsæll fræðimaður og kennari, en einnig dugmikill framkvæmdamaður, sem sat í stjórn fjölmargra atvinnufyrirtækja. Þar á meðal voru Flugleiðir, Kassagerðin, Ármannsfell, Nýherji, Hampiðjan, Verðbréfaþing og Venus. Árni rak ásamt félögum sínum eitt öflugasta útgerðarfyrirtæki landsins, Granda.

Hann fæddist 11. maí 1932 og stundaði nám í fjármálafræðum í Harvardháskóla og Oslóarháskóla. Með námi og að því loknu starfaði hann meðal annars hjá Alþjóðabankanum í Washington, í Framkvæmdabankanum og viðskiptaráðuneytinu, en varð árið 1961 prófessor í viðskiptadeild Háskóla Íslands.

„Árni var frábær kennari, frjór í hugsun og áhugasamur um nemendur sína. Það var samdóma álit okkar nemendanna að í hópi þeirra kennara við viðskiptadeild Háskóla Íslands sem önnuðust kennslu í viðskiptagreinum bæri Árni af sakir traustrar fræðimennsku og djúps skilnings á atvinnulífinu,“ skrifaði Ragnar Árnason prófessor, formaður rannsóknarráðs RNH, við lát Árna.

 

Nýjustu fréttir

Allar fréttir