FréttirSkrá á póstlista

08.10.2013

Fá góðan ufsa með þorskinum á Vestfjarðamiðum

Ísfisktogarinn Ásbjörn RE er nú að veiðum á Vestfjarðamiðum og að sögn skipstjórans, Friðleifs Einarssonar, hefur ágætur afli fengist í veiðiferðinni. Skipið fór inn til löndunar á Ísafirði sl. sunnudag og samkvæmt áætlun er það væntanlegt til hafnar í Reykjavík nk. fimmtudagsmorgun.

,,Það er reyndar frekar rólegt yfir aflabrögðunum þessa stundina en það er ekki óalgengt að það sé dagamunur á því hve aflinn er góður. Þegar á heildina er litið þá hafa aflabrögðin verið góð,“ segir Friðleifur en er rætt var við hann var skipið að veiðum í Þverál auk nokkurs fjölda annarra togara.

Ásbjörn fór frá Reykjavík sl. miðvikudag og veiðiferðin nú er því nokkuð lengri en þegar sótt er á karfaslóðina út af Reykjanesi. Nú er það þorskurinn sem sótt er í og Friðleifur segir að einnig hafi fengist töluvert af ufsa.

,,Þetta er allt mjög góður fiskur. Meðalvigtin á þorskinum er um 2,5 kíló og ufsinn er enn vænni eða rúmlega 3,0 kíló að jafnaði,“ segir Friðleifur Einarsson.

 

Nýjustu fréttir

Allar fréttir