FréttirSkrá á póstlista

03.10.2013

Tæplega 25 þúsund tonna síldar- og makrílafli á sumarvertíðinni

Veiðum skipa HB Granda á norsk-íslenskri síld og makríl lauk formlega 23. september sl. er Lundey NS kom með síðasta farm vertíðarinnar til Vopnafjarðar. Á vertíðinni veiddust um 12.840 tonn af norsk-íslenskri síld og 12.015 tonn af makríl eða alls um 24.855 tonn.

Vertíðin nú var um margt ólík fyrri vertíðum að því leiti að nú var lögð mest áhersla á makrílveiðar framan af vertíðinni. Sömuleiðis var reynt að stýra veiðunum þannig að sem minnst veiddist af síld með makrílnum og svo öfugt. Slík stýring skiptir miklu máli fyrir vinnsluna í landi.

Fyrsti aflinn á vertíðinni barst til Vopnafjarðar 15. júlí sl. er Faxi RE kom þangað með 360 tonna afla, aðallega makríl en um 50 tonn af síld. Auk Faxa fór Ingunn AK til veiða í byrjun vertíðar en Lundey hóf veiðar nokkru síðar. Settur var nýr andveltitankur í skipið og var þeim framkvæmdum ekki lokið þegar vertíðin hófst.

Guðlaugur Jónsson, skipstjóri á Ingunni, er einn reyndasti skipstjóri landsins þegar veiðar á uppsjávartegundum eru annars vegar, og hann segir að þótt aflinn hafi verið með ágætum þá hafi vertíðin verið með öðrum brag en menn hafi átt að venjast mörg undanfarin ár.

,,Fyrir það fyrsta þá var veðráttan verri. Það var rysjótt tíð og þótt það hafi ekki beinlínis verið mikið um brælur þá var stöðugur kaldaskítur á miðunum. Hvað makrílinn varðar þá var meira haft fyrir veiðunum en við höfum átt að venjast. Yfirborðshiti sjávar var að jafnaði um einni gráðu lægri en undanfarin ár. Makríllinn var í smærra lagi framan af vertíðinni og sömuleiðis dreifðari og við þurftum að toga lengur og fara víðar til þess að ná sama aflamagni og á undanförnum vertíðin,“ segir Guðlaugur en hann efast ekki um að það hafi verið skynsamleg ákvörðun að reyna að halda makrílnum og síldinni sem mest aðskildum í einstökum veiðiferðum.

,,Þa hefur allt að segja fyrir vinnsluna í landi. Nýtingin verður mun betri með þessu móti. Smærri makríllinn er svipaður að stærð og síldin og það hefði skapað mikil vandræði fyrir flokkun aflans í landi ef vinnslan hefði fengið mjög blandaðan afla framan af vertíðinni. Undir lokin var þetta ekki vandamál því þá vorum við að fá stóran makríl sem auðvelt var að flokka frá síldinni,“ segir Guðlaugur Jónsson.

 

Nýjustu fréttir

Allar fréttir