FréttirSkrá á póstlista

01.10.2013

Myndverkið Þúfa senn fullgert

Framkvæmdir við gerð útilistaverksins Þúfu við suðausturgafl Ísbjörnsins, hinnar nýju frystigeymslu HB Granda á Norðurgarði, hafa staðið yfir í sumar og að sögn Ólafar Nordal, sem bar sigur úr býtum í hönnunarsamkeppni um gerð listaverks fyrir félagið í maímánuði sl., á verkið að vera fullgert nú á haustmánuðum.

Myndverkið Þúfa er grasi vaxinn hóll með steinþrepum sem leiða upp á topp hólsins þar sem staðsettur verður lítill fiskhjallur. Þar er, að sögn Ólafar, gert ráð fyrir að þurrkaður verði hákarl og annar fiskur. Hóllinn verður í endanlegri stærð 26 metrar í þvermál og 8 metra hár. Í verkið fara um 2400 m3 af jarðefni og mun það vega um 4.500 tonn þegar allt er talið.

,,Að byggja svona hól í þessari stærð er stærra verkefni en maður heldur í fyrstu. Það tók dágóðan tíma að hanna uppbygginguna á hólnum og reikna út þyngd hans og umfang og áhrif hans á umhverfið,“ segir Ólöf en að hennar sögn gátu eiginlegar framkvæmdir við gerð hólsins hafist þegar komið var fram í júlí.

,,Vinnuvélar komu þá á svæðið og var kjarni ,,þúfunnar“ reistur úr grófum jarðvegi og stóru grjóti. Síðan var beðið í nokkrar vikur og hrúgan látin taka sig og síga. Að því loknu var hægt að grófmóta form verksins og móta svæðið í kring. Þúfan sjálf verður alþakin grasi sem og allt svæðið í kring. Vegna mikls bratta neðst í hólnum hefur verið ákveðið að hlaða torfi og grjóti í strenghleðslu, sem er aldagömul aðferð til að byggja upp grasvegg. Þá er lagt grjót og torf á víxl og loks er hleðslan þakin jarðvegi sem gras vex svo í,“ segir Ólöf.

Öll jarðvinna við gerð myndverksins hefur verið unnin af starfsmönnum ÍAV. Um útreikninga og verkhönnun sá VSÓ og landslagshönnuður er Emil Gunnar Guðmundsson.

Að sögn Ólafar er nú beðið eftir næsta verktaka en samið hefur verið um að Guðjón Örn Stefánsson sjái um alla torfhleðslu, steinhleðslu og þökulögn og mun hann hefjast handa í byrjun októbermánaðar. Stefnt er að því að klára verkið á haustmánuðum og allt gengur að óskum gæti formlega vígsla þess orðið áður en árið er úti.

 

Nýjustu fréttir

Allar fréttir