FréttirSkrá á póstlista

30.09.2013

Fulltrúi HB Granda í öðru sæti í sjósundkeppni útgerðarfélaga

Um helgina fór fram sjósundskeppni útgerðarfélaga í Nauthólsvík í Reykjavík. Keppendur voru vel á annan tuginn og svo fór að Árni Guðnason, fulltrúi Hvals hf., bar sigur úr býtum og hlaut hann því nafnbótina ,,Sjósundgarpur ársins 2013“. Í öðru sæti varð Davíð J. Davíðsson, sölustjóri hjá HB Granda.

Keppnin fór þannig fram að synt var frá varðskipinu Baldri í land í Nauthólsvík eða um 150 metra vegalengd í átta gráðu heitum sjó. Keppendur voru ræstir samtímis og sá sem fyrstur náði landi stóð uppi sem sigurvegari.

Það var Sundsamband Íslands sem stóð fyrir keppninni í samvinnu við Landhelgisgæsluna og Íþrótta- og tómstundaráð Reykjavíkur. Stefnt er að því að hún fari næst fram í lok ágúst 2014.

Á heimasíðu SSÍ segir að markmiðið sé að vekja athygli á fjölbreyttu starfi sambandsins, öryggi sjómanna og mikilvægi þess að kunna að synda. Að auki sé SSÍ að vinna að því að koma upp Lífbjörgunardeild innan sambandsins að evrópskri fyrirmynd. Landhelgisgæslan notar tækifærið til að kynna nýjungar í björgun úr sjó og ÍTR veki athygli á frábærri aðstöðu sem rekin er í Nauthólsvík.

 

Nýjustu fréttir

Allar fréttir