FréttirSkrá á póstlista

23.09.2013

Síðasti farmurinn á sumarvertíðinni til Vopnafjarðar

Lundey NS kom til Vopnafjarðar laust fyrir hádegi í dag með um 700 tonna afla sem var svo til eingöngu síld. Þar með er úthlutuðum kvóta náð og veiðum uppsjávarveiðiskipa HB Granda á norsk-íslenskri síld og makríl lokið að þessu sinni.

Arnþór Hjörleifsson, skipstjóri á Lundey, segir að í þessari síðustu veiðiferð hafi hann verið austan við Þórsbankann, djúpt undan landi.

,,Við áttum aðeins eftir ófarnar um 15 sjómílur að lögsögumörkunum á milli Íslands og Færeyja en þaðan eru 180 mílur til Vopnafjarðar,“ segir Arnþór. Hann er ánægður með stærð og ástand síldarinnar.

,,Þetta er með stærstu síld sem við höfum séð. Meðalvigtin er ríflega 400 grömm og síldin er feit og velhaldin. Það varð aðeins vart við makríl þarna úti en magnið sem við fengum er óverulegt.“

Að sögn Arnþórs gengu síld- og makrílveiðarnar vel að þessu sinni sem fyrr.

,,Við hófum veiðar reyndar um hálfum mánuði síðar en Faxi RE og Ingunn AK vegna breytinga á skipinu en ég get ekki kvartað undan aflabrögðunum. Það olli okkur reyndar vandkvæðum, eins og öðrum, að þar sem hægt var að veiða hreinan makríl án þess að eiga von á að fá mikið af síld sem aukaafla, þar var makríllinn smærri en norðar á veiðislóðinni. Ef sótt var í stærri makrílinn þá gat maður alltaf átt von á því að fá töluvert af síld með. Lögð var áhersla á makrílveiðarnar framan af vertíðinni en síðan tók síldin við og ég verð að segja að ég hef sjaldan eða aldrei orðið var við jafn mikið af síld og á þessari vertíð. Þá hefur orðið vart við íslenska sumargotssíld hér mjög víða og ég er viss um að það er íslensk síld inni á Vopnafirði í þessum töluðu orðum. Það hefur orðið vart við töluvert af íslensku síldinni út af Berufjarðarálnum og vestur eftir alveg upp að 12 mílunum. Vonandi verður síldin áfram hér á Austfjarðamiðum þegar veiðarnar hefjast í næsta mánuði enda myndi það spara okkur verulegar siglingar að veiða síldina hér í stað þess að sækja hana í Breiðafjörðinn líkt og við höfum gert undanfarin ár,“ segir Arnþór Hjörleifsson.

Vinnslu lýkur á Vopnafirði á morgun

Nú er verið að ljúka við að vinna úr um 650 tonna afla sem Faxi kom með til Vopnafjarðar sl. laugardag. Áður var Ingunn í höfn með rúmlega 800 tonna afla. Að sögn Þorgríms Kjartanssonar, starfandi vinnslustjóra, hefst löndun á afla Lundeyjar fljótlega upp úr hádeginu og miðað við ganginn í vinnslunni ætti vinnslu á aflanum að ljúka annað kvöld.

,,Þá taka við allsherjarþrif og allur vinnslubúnaðurinn verður yfirfarinn og gerður klár fyrir vinnslu á íslensku síldinni. Menn tala um að þær veiðar geti hafist um eða upp úr miðjum næsta mánuði,“ sagði Þorgrímur Kjartansson.

 

Nýjustu fréttir

Allar fréttir