FréttirSkrá á póstlista

20.09.2013

Ferskur fiskur í hálfa milljón máltíða fluttur út í viku hverri

Ferskfiskútflutningur á vegum HB Granda hefur aukist á þessu ári í samanburði við fyrri ár og allt stefnir í að magnið aukist enn í framtíðinni. Er það í samræmi við þá stefnumörkun stjórnar félagsins að auka ferskfiskvinnsluna en draga úr sjófrystingu. Að jafnaði hafa ferskir flakabitar sem samsvara um hálfri milljón máltíða verið fluttir utan í viku hverri undanfarnar vikur að sögn Sólveigar Örnu Jóhannesdóttur, sölustjóra ferskfiskafurða.

Svo sem greint hefur verið frá hér á vefsíðunni stefnir í aukna ferskfiskvinnslu á vegum HB Granda á þessu kvótaári. Helgast það m.a. af kvótaaukningu í tegundum eins og þorski, karfa og ufsa sem og því að ákveðið var að auka hráefnisöflunina fyrir fiskiðjuver félagsins í Reykjavík og á Akranesi með því að fjölga ísfisktogurunum um einn. Við fyrirsjáanlegri aukningu hefur síðan verið brugðist með stórauknum fjárfestingum í fiskvinnslubúnaði og fjölgun starfa í landvinnslunni.

Að sögn Sólveigar Örnu eru helstu markaðssvæðin fyrir ferskar afurðir frá HB Granda í Frakklandi, Þýskalandi og Belgíu. Hún segir að það stafi hvort tveggja af því að í þessum löndum sé hefð fyrir neyslu á þeim fisktegundum sem unnar eru hjá félaginu sem og því að flutningsmöguleikar séu góðir.

,,Miðað við útflutninginn eru um 500 þúsund Evrópubúar að kaupa máltíðir þar sem fiskur frá HB Granda er uppistaðan í máltíðinni í viku hverri. Það samsvarar u.þ.b. einni og hálfri máltíð fyrir hvern Íslending og við höfum hug á að bæta vel við þennan góða hóp í framtíðinni,“ segir Sólveig Arna en hún vekur athygli á að það sé engin tilviljun að þessum árangri hafi verið náð.

,,Við höfum unnið markvisst að því að auka sölu ferskra afurða, bæði hefðbundinna og svo sérunninna afurða. Fjárfest hefur verið í nýjum vinnslulínum og vélbúnaði og ráðist hefur verið í breytingar á skipum félagsins til að gera þetta mögulegt. Kvótaaukning á nýju kvótaári, sem og aukin ráðstöfun til landvinnslunnar, sér okkur fyrir auknu magni hráefnis. Einnig er sá nýi búnaður, sem fjárfest hefur verið í, vel til þess fallinn til að mæta þörfum viðskiptavinanna. Í því sambandi má nefna að við getum nú afhent kaupendum umtalsvert magn eða fjölda fiskbita af sömu þyngd, sem hentar vel þegar matreiða þarf fyrir marga og einnig þar sem reglur hafa verið settar um að hver máltíð skuli innihalda ákveðið magn af próteinum. Við getum einnig beinhreinsað fiskflökin og aukið nýtinguna í dýrar afurðir umtalsvert meira en hægt var að gera í höndum í hefðbundinni flakavinnslu.“

Að sögn Sólveigar Örnu er það styrkur HB Granda að auk þorskvinnslu þá sé löng hefð fyrir vinnslu á öðrum tegundum s.s. karfa og ufsa.

,,Við höfum verðið öflug í vinnslu á tegundum sem þrengra er um á markaði og hefð er fyrir að séu ódýrari vara en þorskafurðir. Við höfum sótt fram með þessar tegundir með því að vanda til verka og leita og nýta tækifæri sem gefast á virðisaukningu. Styrkur okkar felst ekki síst í því að innan félagsins höfum við stjórn á öllum þáttum málsins, þ.e.a.s. veiðum, vinnslu og sölu afurðanna. Þessi virðiskeðja er eins og aðrar keðjur aldrei sterkari en veikasti hlekkurinn og við höfum því unnið markvisst að gæðamálum með okkar sjómönnum, vinnslufólki, flutningsaðilum, kaupendum og fagfólki í matvælaiðnaði með það að leiðarljósi að hámarka gæði og líftíma okkar vara,“ segir Sólveig Arna Jóhannesdóttir.

 

Nýjustu fréttir

Allar fréttir