FréttirSkrá á póstlista

18.09.2013

Kolmunni farinn að gera vart við sig á síldarslóðinni

Senn líður að lokum veiða skipa HB Granda á norsk-íslenskri síld á þessari vertíð enda hefur gengið hratt á kvótann síðustu vikurnar. Beinum makrílveiðum lauk fyrir nokkru en þess var gætt að nægur makrílkvóti væri eftir til að mæta makrílaflanum sem nú veiðist sem aukaafli. Misjafnt er hve mikið veiðist af makríl með síldinni þessa dagana en dæmi eru um að allt að 50% aflans í einstökum holum sé makríll.

Þrjú uppsjávarveiðiskip HB Granda eru á sjó í dag. Lundey NS og Ingunn AK eru á miðunum austur af Austfjörðum og Faxi RE fór frá Vopnafirði í morgun áleiðis á miðin. Að sögn Theódórs Þórðarsonar, sem er skipstjóri á Ingunni í yfirstandandi veiðiferð, er skipið nú statt í kantinum austur af Glettinganesgrunni en þar eru flest uppsjávarveiðiskipanna að veiðum.

,,Við fórum frá Vopnafirði í gærmorgun þótt löndun hafi lokið á sunnudag. Það var snælduvitlaust veður á miðunum og ekkert vit í að fara fyrr út,“ segir Theódór en hann segir líflegt um að litast á veiðisvæðinu og víða séu góðar lóðningar. Það sé þó engin ávísun á góðan afla.

,,Við tókum eitt hol í nótt og fengum um 70 tonn. Aflinn var aðallega síld en kolmunni er farinn að gera vart við sig og ætli um 10% aflans hafi ekki verið kolmunni. Það eru margir í vandræðum með síldveiðarnar vegna þess að sum skipin eiga lítið eftir af makríl en í flestum tilvikum er síld samt uppistaða aflans,“ segir Theódór Þórðarson.

Þegar veiðum á norsk-íslensku síldinni lýkur taka við veiðar á íslenskri sumargotssíld en að sögn Theódórs hefur hennar orðið vart sunnarlega á Austfjarðamiðum. Undanfarin ár hefur íslenska síldin þó aðallega verið veidd í Breiðafirði.

 

Nýjustu fréttir

Allar fréttir