FréttirSkrá á póstlista

16.09.2013

Aukningu í ferskfiskvinnslu mætt með fjárfestingum í búnaði og fjölgun starfa

Fyrirsjáanleg er mikil auking í ferskfiskvinnslu í fiskiðjuverum HB Granda í Reykjavík og á Akranesi á nýhöfnu fiskveiðiári. Stafar hún af aukningu kvóta í tegundum eins og þorski, ufsa og karfa og því að stjórnendur félagsins hafa ákveðið að fækka frystitogurum og leggja aukna áherslu á útgerð ísfisktogara.

Við fyrirsjáanlegri aukningu hefur m.a. verið brugðist með kaupum á nýjum og fullkomnum fiskvinnslubúnaði og fjölgun starfa í landvinnslunni í Reykjavík og á Akranesi. Nýráðningar í fiskiðjuverum HB Granda í ágústmánuði og það sem af er september eru alls um 60 talsins og þar af eru um 35 í Reykjavík og um 25 á Akranesi.

HB Grandi hefur undanfarin ár gert út fimm frystitogara og þrjá ísfisktogara en fyrr á þessu ári ákvað stjórn félagsins að fækka frystitogurunum um tvo og fjölga ísfisktogurunum um einn. Búið er að leggja Venusi HF og verið er að breyta frystitogaranum Helgu Maríu AK í ísfisktogara í Póllandi. Vonast er til að þeim breytingum ljúki um miðjan nóvember nk.

Í fiskiðjuverinu á Norðurgarði í Reykjavík hefur verið í notkun röntgenstýrð bita- og beinaskurðarlína fyrir karfa frá Völku ehf. í bráðum eitt ár og er reynslan af notkun hennar mjög góð. Röntgen- og þrívíddarmyndavélar eru notaðar til að greina og staðsetja bein í karfaflökum og beingarðurinn er síðan skorinn úr með vatnsskurði. Auk þess er hægt að skera flökin í bita í ákveðnum stærðum. Reynslan hefur sýnt að með þessu móti er hægt að ná fram nákvæmari skurði og bættri nýtingu auk þess sem afkastagetan í vinnslunni hefur aukist. Þá eru beinlaus flök mun verðmætari afurð en bein með flökum.

Nýlega var svo tekin í notkun ný og fullkomin pökkunar- og flokkunarstöð frá Marel fyrir ferskfiskbita í fiskiðjuverinu á Norðurgarði en sá búnaður verður fyrst um sinn notaður til að fínflokka ferska ufsabita og pakka þeim.

Ný röntgenstýrð beina- og bitaskurðarlína fyrir þorsk á Akranesi

Í fiskiðjuveri HB Granda á Akranesi stefnir í verulega aukningu í vinnslu á ferskum fiski, líkt og í Reykjavík, og þar var tekin í notkun ný röntgenstýrð beina- og bitaskurðarlína fyrir þorsk þann 6. ágúst sl. Búnaðurinn er frá Völku ehf. og var gengið frá samningi um kaupin á sjávarútvegssýningunni í Brussel í apríl sl. Með honum er hægt staðsetja bein og fjarlægja beingarðinn úr þorskflökum með mikilli nákvæmi auk þess sem hægt er að skera flökin í bita. Þótt nýja línan hafi aðeins verið í notkun í rúman mánuð þá segir Þröstur Reynisson, vinnslustjóri HB Granda á Akranesi, að búnaðurinn hafi reynst vel.

,,Við ætluðum okkur ágústmánuð til að læra á og stilla línuna. Vinnslan gengur vel og hún er nálægt þeim markmiðum sem sett voru,“ segir Þröstur en að hans sögn á nýi búnaðurinn að geta nýst til að vinna úr öllum þeim þorskkvóta sem HB Grandi er með á fiskveiðiárinu. Hraðinn í vinnslunni hefur aukist og nýting batnað og framtíðarmarkmiðið sé að bæta nýtinguna ennfrekar þannig að hægt sé að auka framleiðsluna á dýrustu afurðunum.

Þess má geta að ferskar þorskafurðir frá fiskiðjuveri HB Granda á Akranesi fari með flugi á erlendan markað sex sinnum í viku.

 

Nýjustu fréttir

Allar fréttir