FréttirSkrá á póstlista

12.09.2013

Ágætur afli frystitogaranna í sumar

Ágæt aflabrögð hafa verið hjá frystitogurum HB Granda í sumar. Drjúgur hluti sumarsins fór í makrílveiðar hjá Þerney RE og Örfirisey RE og gengu þær veiðar mjög vel. Skipin eru nú komin á bolfiskveiðar, líkt og Höfrungur III AK, sem verið hefur á hefðbundnum veiðum allt árið.

Höfrungur III kom til hafnar sl. sunnudag og að sögn Haraldar Árnasonar, sem var skipstjóri í veiðiferðinni, var árangurinn í þessum fyrsta túr hans með skipið vel viðunandi. Veiðiferðin hófst á Vestfjarðamiðum þar sem verið hefur mjög góð ufsaveiði í sumar en auk þess fékkst góður ýsuafli á Strandagrunni sem og karfa- og þorskafli í kantinum við Halann.

,,Við fórum síðan austur fyrir land þegar líða tók á veiðiferðina. Við vorum á grálúðuveiðum í Héraðsflóadjúpi, Seyðisfjarðardjúpi og suður af Fætinum, sem svo er kallaður. Aflabrögðin voru þokkaleg. Þetta eru hins vegar það lítil svæði, sem grálúðan heldur sig á, að þau þola ekki að veitt sé á þeim í meira en sólarhring eða svo og þá þarf maður að færa sig. Við vorum því aðeins í tæpa þrjá sólarhringa á grálúðuveiðunum,“ segir Haraldur en eftir þetta var sjónunum beint að karfa- og þorskveiðum í kantinum við Hvalbakshallið og þar austur og vestur af í lok veiðiferðarinnar.

Enn góð ufsaveiði á Vestfjarðamiðum

Von er á Þerney til hafnar nk. sunnudag en er samband náðist við Ægir Franzson skipstjóra nú laust upp úr hádeginu var skipið statt á Hornbanka.

,,Við erum að eltast við ýsu. Hér var mjög góð ýsuveiði í gær en hún er tregari í dag. Við erum reyndar ekki búnir að vera hér í nema um sólarhring þannig það er of snemmt að kveða upp úr um það hvernig framhaldið verður,“ segir Ægir.
Að sögn Ægis hefur ufsaveiði verið mjög góð á Vestfjarðamiðum í sumar og þá ekki síst síðustu vikurnar. Þá hafi karfaveiði um tíma verið mjög góð í kantinum við Halann og þorsk sé víða hægt að veiða með góðum árangri.

,,Karfaveiðin á Vestfjarðamiðum undanfarin ár hefur komið mörgum á óvart enda töldu menn að karfinn veiddist helst mun sunnar. Það má vera að okkur þyki þetta vera nýmæli en gömlu mennirnir töluðu oft um að það hefði verið mokveiði á karfa á Vestfjarðamiðum á sínum tíma. Útbreiðsla ýsunnar norður á bóginn er allt annað mál, svo ekki sé talað um makrílinn. Við urðum varir við mikið af makríl á Hornbankanum á dögunum. Menn hafa haldið því fram að makríllinn haldi sig helst í 10-12°C yfirborðshita en hann virðist ekki setja það fyrir sig að ganga í gegnum rúmlega 7°C hita eins og hér var þá,“ sagði Ægir Franzson.

 

Nýjustu fréttir

Allar fréttir