FréttirSkrá á póstlista

06.09.2013

Mokveiði djúpt út af Austfjörðum

Byrjað var að landa afla úr Lundey NS á Vopnafirði laust upp úr hádeginu í dag en að sögn Arnþórs Hjörleifssonar skipstjóra var skipið með um 600 tonn af síld og makríl í veiðiferðinni. Hann segir að síðustu tvö holin hafi verið tekin í gær djúpt austur af Austfjörðum og þar hafi verið mokveiði.

,,Við byrjuðum veiðiferðina út af Héraðsflóanum og síðar færðum við okkur mun sunnar og vorum að veiðum SA af Hornafirði. Þar var hlutfall makríls með síldinni um 30-40%. Loksins lá leiðin NA eftir og tókum tvö síðustu holin á svæði sem er ekki nema um 50 til 60 mílur frá miðlínunni á milli Íslands og Færeyja. Í því fyrra fengum við 150 tonn eftir að hafa togað í 160 mínútur og í hinu seinna var aflinn um 110 til 120 tonn í heldur styttra togi,“ segir Arnþór en hann áætlar að síld hafi verið um 70% aflans í þessum tveimur holum en um 30% hafi verið makríll.

Að sögn Garðars Svavarssonar, deildarstjóra uppsjávarsviðs HB Granda, hafa skip félagsins nú landað tæplega 11.000 tonnum af makríl og 7.500 tonnum af norsk-íslenskri síld á Vopnafirði frá upphafi vertíðar.

,,Nú er áherslan lögð á síldveiðar og eftirstöðvar makrílkvótans verða teknar sem meðafli á síldveiðum,“ segir Garðar.
Strandflutningum fagnað
Nú er strandflutningaskipið Pioneer Bay statt á Vopnafirði en þetta er í fyrsta skipti sem slíkt skip kemur til Vopnafjarðar frá því að strandflutningar voru teknir upp að nýju fyrr í sumar eftir mjög langt hlé. Magnús Róbertsson, vinnslustjóri HB Granda á Vopnafirði, segir komu skipsins vera fagnaðarefni.

,,Skipið kom hingað með þungavöru eins og steinsteyptar hellur sem mun skynsamlegra er að flytja sjóleiðis á milli landshluta í stað þess að flytja hana landleiðina. Við nýtum tækifærið og nú er verið að lesta skipið með 25 gámum af frystum makrílafurðum,“ segir Magnús Róbertsson.

Samkvæmt Garðari Svavarssyni er stefnt að því að flytja rúm 500 tonn af makrílafurðum í umræddum gámum frá Vopnafirði til Hollands. Þar verður vörunni komið fyrir í öðrum gámum og hún flutt áfram á áfangastaði til kaupenda í Asíu og Austur- Evrópu.

Nýjustu fréttir

Allar fréttir