FréttirSkrá á póstlista

02.09.2013

Skip HB Granda með 42.653 tonna þíg. kvóta

Samkvæmt úthlutun Fiskistofu á aflamarki fyrir fiskveiðiárið 2013/2014 koma 42.653 þorskígildistonn í hlut skipa HB Granda. Alls var úthlutað 381.431 þíg. tonnum að þessu sinni og er hlutdeild skipa HB Granda því um 11,2%. Úthlutunin miðast í flestum tilvikum við slægðan fisk.

Á vef Fiskistofu segir að úthlutunin fari fram á grundvelli aflahlutdeilda að teknu tilliti til frádráttar fyrir jöfnunaraðgerðir með sama hætti og á fyrra fiskveiðiári. Þá var heildarúthlutunin um 348.553 þorskígildistonn, reiknuð í þorskígildum fiskveiðiársins sem nú er gengið í garð. Vakin er athygli á því að upphafsúthlutunin í fyrra reiknuð í þorskígildum þess fiskveiðiárs var rúm 318 þúsund tonn. Hækkun í þorskígildistonnum milli ára stafar því að verulegum hluta af breytingum á þorskígildisstuðlunum, einkum vegna verðfalls í þorski, en einnig er um auknar aflaheimildir að ræða. Þannig hækkar úthlutun í þorski um 14 þúsund tonn og nemur rúmum 171 þúsund tonnum. Úthlutun í gullkarfa fer í rúm 50 þúsund tonn og hækkar um 6 þúsund tonn og úthlutun í ufsa hækkar um 3 þúsund tonn. Þá er upphafsúthlutun i síld um 16 þúsund tonnum hærri en í fyrra, eða 79 þúsund tonn.

Fram kemur á vefnum að nú sé í fyrsta sinn úthlutað í þremur nýjum kvótategundum, blálöngu, gulllaxi og litla karfa. Um bráðabirgðaúthlutun er að ræða þar sem aðeins er úthlutað 80% aflamarksins í þessum tegundum. Afgangnum verður úthlutað eftir að útgerðir, sem telja sig búa yfir aflareynslu, hafa haft möguleika á að gera athugasemdir við úthlutunina. Athygli er einnig vakin á að síðar á árinu verður úthlutað aflamarki í deilistofnum og ekki er óalgengt að aukið sé við aflamark í uppsjávarfiski. Þess vegna á heildaraflamark einstakra skipa og hafna og innbyrðishlutfall þeirra eftir að breytast í kjölfar slíkra úthlutana þegar líður á fiskveiðiárið.

 

Nýjustu fréttir

Allar fréttir