FréttirSkrá á póstlista

31.08.2013

Stór og góður makríll í Héraðsflóadjúpinu

,,Við hrökkluðumst hingað norður í Héraðsflóadjúpið undan veðri í gær og náðum að taka eitt hol í nótt sem leið. Aflinn hefði mátt vera meiri en aflasamsetningin var góð eða um 80% makríll og 20% síld. Stærðin á makrílnum er mjög góð og í prufum sáust fiskar allt upp í um 800 grömm að þyngd.“

Þetta sagði Arnþór Hjörleifsson, skipstjóri á Lundey NS, er rætt var við hann nú upp úr hádeginu í dag. Lundey var við veiðar suður af Hornafirði þegar veðrið breyttist til hins verra og það þótti ekki verjandi annað en að færa sig af svæðinu til þess að forða aflanum frá skemmdum. Arnþór segir að ágætis veður hafi verið á Héraðsflóanum þegar þangað var komið og það sé fyrst nú að farið sé að kalda.

Að sögn Arnþórs er ekki ólíklegt að farið verði inn til Vopnafjarðar í dag en það velti þó á því hvernig vinnsla á afla Ingunnar AK gangi. Lundey er nú að toga og í tönkum skipsins eru um 450 tonn af fiski, aðallega makríl en einnig síld.

Ingunn er á Vopnafirði en í síðustu veiðiferð var skipið að veiðum suður af Hornafirði. Aflinn var um 600 tonn af makríl. Faxi RE er að veiðum á sömu slóðum og að sögn Alberts Sveinssonar skipstjóra var ekkert veiðiveður þegar skipið kom á svæðið í gærmorgun.

,,Við héldum bara sjó í skítabrælu og náðum ekki að kasta fyrr en skömmu eftir hádegið. Veðrið er ennþá slæmt en við togum undan vindi og vonandi verður aflinn ásættanlegur,“ sagði Albert Sveinsson.

 

Nýjustu fréttir

Allar fréttir