FréttirSkrá á póstlista

22.08.2013

Vel gengur á makrílveiðum fyrir vestan land

Tveir af frystitogurum HB Granda, Þerney RE og Örfirisey RE, eru nú á makrílveiðum vestur og norðvestur af Snæfellsnesi og að sögn Ægis Franzsonar, sem er skipstjóri á Þerney í veiðiferðinni, hafa aflabrögðin verið góð. Frystigeta skipsins hefur verið nýtt til fulls alla veiðidagana og ráðgert er að skipið komi til hafnar í Reykjavík nk. sunnudag.

,,Við höfum aðallega verið að veiðum í Kolluálnum og einnig farið norður á Látragrunn. Hér er mikið af makríl og það er stór kostur að aukaafli er enginn. Þetta er fínasti makríll og mest af aflanum hefur verið fiskur frá um 300 grömmum og upp í um 500 grömm,“ segir Ægir.

Makríllinn er heilfrystur um borð og er frystigetan ríflega 55 tonn á sólarhring. Hún stjórnar aflanum og að sögn Ægis hefur stundum tekið skamman tíma að ná dagsskammtinum. Á milli þess hefur skipið verið látið reka á meðan verið er að vinna aflann.

Fjöldi skipa hefur verið á makrílveiðum í nágrenni Kolluálsins að undanförnu og er rætt var við Ægi voru tíu skip á svæðinu, flest uppsjávarveiðiskip. Sem fyrr segir er gert ráð fyrir að Þerney komi til hafnar nk. sunnudag og veiðiferðin verður því tíu daga löng.

 

Nýjustu fréttir

Allar fréttir