FréttirSkrá á póstlista

20.08.2013

Mjög góð ýsuveiði á Strandagrunni

,,Við erum að veiðum á Strandagrunni en þar var opnað svokallað ýsuhólf fyrir veiðum sl. laugardag. Veiðin var mjög góð um helgina en það gerði haugabrælu í gærkvöldi og nótt og aflabrögðin hafa verið tregari í dag. Hér voru einir 12 togarar að veiðum þegar mest var en nú eru bara fjórir togarar eftir á svæðinu,“ sagði Haraldur Árnason, skipstjóri á Höfrungi III AK, er rætt var við hann upp úr hádegi í dag.

Að sögn Haraldar fengust mest upp í um tvö tonn af ýsu á togtímann en hann segir ýsuna mjög væna og lítið sé um smærri ýsu í aflanum.
Höfungur III fór frá Reykjavík 10. ágúst sl. og hófust veiðarnar vestur í kantinum við Halann.

,,Þar var mjög góð veiði og ekki síst ufsaveiði. Þar var einnig ágæt karfaveiði og þorskurinn lét sig heldur ekki vanta,“ segir Haraldur en hann segir ufsann í kantinum af góðri stærð og vera vænni en menn hafi séð sl. tvö ár.

,,Það er annars erfitt fyrir mig að tjá um stöðu mála með samanburði við síðustu ár því á þessum árstíma var ég jafnan með Venus HF að veiðum í Baretshafinu. Þá er þetta mín fyrsta veiðiferð á Höfrungi III þannig að ég er alltaf að læra eitthvað nýtt,“ sagði Haraldur Árnason en sem kunnugt er var Venusi lagt nú í sumar.

 

Nýjustu fréttir

Allar fréttir