FréttirSkrá á póstlista

19.08.2013

Enn mikið af síld á makrílslóðinni fyrir austan

Lundey NS er í höfn á Vopnafirði þar sem verið er að landa afla úr skipinu en í síðustu veiðiferð fengust alls rúmlega 600 tonn af makríl og síld. Að sögn Arnþórs Hjörleifssonar skipstjóra er enn mikið um að síld veiðist með makrílnum og víða er hlutfall makríls og síldar í aflanum svipað.

,,Það er alls staðar hægt að fá síld en markmiðið á makrílveiðunum er að fá sem minnst af síld sem aukaafla. Þar stendur hnífurinn í kúnni því síldin er alls staðar þar sem kastað er á makríl. Það kemur reyndar fyrir að menn fái svo til hrein makrílhol en það er hefur verið fátítt á miðunum fyrir Austur- og SA-landi,“ segir Arnþór en að hans sögn hafa skipin farið mjög víða í leit að hreinum makrílafla.

,,Í nýafstaðinni veiðiferð vorum við að veiðum suður úr Reyðarfjarðardjúpinu og fórum einnig út á Rauða torgið og syðst í Rósagarðinn. Þar áður fórum við allt út að miðlínunni á milli Íslands og Færeyja og við höfum reynt fyrir okkur í Héraðsflóadýpinu svo dæmi séu nefnd. Það er reyndar hægt að hitta á heinan makríl og nærtækasta dæmið um það er að í síðasta túr fékk Faxi RE góðan makríl á 12 mílna mörkunum við Hvalbak og enga síld. Þá heyrði ég í gær að Álsey VE hefði fengið um 600 tonn af stórum og góðum makríl á tiltölulega skömmum tíma í Kolluálnum en ekki veit ég hvort framhald hefur verið á þeim veiðum,“ segir Arnþór en hann upplýsir að það geti reynst vandkvæðum bundið fyrir skip sem landa afla sínum á Vopnafirði eða í næsta nágrenni að sækja makrílinn vestur fyrir land. Þangað er rúmlega 30 tíma sigling frá Vopnafirði og til þess að hægt sé að halda fisknum ferskum og í hæstu gæðum þurfi allt að ganga upp á veiðunum. Það megi ekki taka langan tíma að ná skammtinum fyrir vinnsluna.

 

Nýjustu fréttir

Allar fréttir