FréttirSkrá á póstlista

17.08.2013

Austfjarðatröllið 2013 á Vopnafirði

Í gær var keppt í tveimur greinum, sem eru hluti af kraftakeppninni ,,Austfjarðatröllið 2013“ á Vopnafirði, en keppninni lýkur á Seyðisfirði í dag. Keppendur eru átta talsins, þar af tveir frá Svíþjóð, en Magnús Ver Magnússon, fyrrum sterkasti maður heims, hefur haft veg og vanda af skipulagningu og framkvæmd þessa viðburðar undanfarin ár.

Meðal styrktaraðila kraftakeppninnar er HB Grandi á Vopnafirði en keppni í bíladrætti var í boði félagsins. Auk þeirrar greinar var keppt í svokallaðri öxullyftu á Vopnafirði. Mjög gott veður var á Vopnafirði, sól og blíða, og að sögn Magnúsar Róbertssonar, vinnslustjóra HB Granda á staðnum, fylgdist fjöldi manns með keppninni.

Sem fyrr segir taka átta kraftajötnar þátt í keppninni að þessu sinni. Hún hófst á Hornafirði sl. fimmtudag og sama dag var keppt á Breiðdalsvík. Í gær voru Vopnafjörður og Bakkafjörður í sviðsljósinu og í dag lá leiðin til Reyðarfjarðar og Seyðisfjarðar þar sem úrslit verða kunngerð nú síðdegis. Meðal íslensku þátttakendanna eru menn sem borið hafa sigur úr býtum í kraftakeppnum áður og nægir þar að nefna Gerorg Ögmundsson sem hampaði titlinum ,,Austfjarðatröllið 2011“. Það er skarð fyrir skildi að sigurvegari síðasta árs, Hafþór Júlíus Björnsson, tekur ekki þátt að þessu sinni en hann er nú staddur í Kína þar sem keppnin ,,Sterkasti maður heims“ hefst í dag. Sænsku keppendurnir tveir eru öflugir aflraunamenn og þeir hafa báðir verið í efstu sætum í keppninni um sterkasta mann Svíþjóðar.

 

Nýjustu fréttir

Allar fréttir