FréttirSkrá á póstlista

16.08.2013

Góðir gestir í heimsókn hjá HB Granda

Sigurður Ingi Jóhannsson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, heimsótti fyrr í vikunni höfuðstöðvar HB Granda á Norðurgarði í Reykjavík. Með í för voru ráðuneytisstjórinn, Kristján Skarphéðinsson, Jóhann Guðmundsson, skrifstofustjóri og Helga Sigurrós Valgeirsdóttir, aðstoðarmaður ráðherra. Á móti þeim tóku Kristján Loftsson, stjórnarformaður HB Granda, og Vilhjálmur Vilhjálmsson forstjóri félagsins. Ráðherra og fylgdarlið snæddu hádegisverð með starfsfólkinu í Norðurgarði og kynntu sér síðan starfsemina í fiskiðjuverinu og frystigeymslunni Ísbirninum.

Að sögn Vilhjálms Vilhjálmssonar var ánægjulegt að fá ráðherra sjávarútvegsmála í heimsókn og hann segist vonast til að skoðunarferðin í fiskiðjuverið og Ísbjörninn hafi orðið til að auka áhuga og skilning ráðherrans á þeirri fjölbreyttu starfsemi sem fram fer innan íslensks sjávarútvegs.

Ekki er annað að sjá en að Sigurður Ingi hafi kunnað vel að meta það sem fyrir augu bar því á Facebook síðu hans má lesa þetta um heimsóknina:

,,Fór í góðu föruneyti í skemmtilega heimsókn í HB Granda. Vorum leidd um vinnslusali fyrirtækisins og fyrir okkur kynnt sú hátækni matvælaframleiðsla sem þar fer fram. Sérstaklega var skemmtilegt að upplifa þá þróun sem orðið hefur í vinnslutækni og það íslenska hugvit sem endurspeglast í tækjabúnaði vinnslunnar. Skipafloti HB Granda samanstendur af 12 skipum, þar af kemur eitt fljótlega heim úr breytingu og settur verður upp nýr vinnslubúnaður keyptur af íslensku tæknifyrirtæki. Við heimsóttum höfuðstöðvarnar í Reykjavík en fyrirtækið er með um 700 starfsmenn í Reykjavík, á Akranesi og á Vopnafirði.“

 

Nýjustu fréttir

Allar fréttir