FréttirSkrá á póstlista

31.07.2013

Breytingar á Helgu Maríu AK samkvæmt áætlun

Nú er réttur mánuður síðan breytingar á frystitogaranum Helgu Maríu AK hófust í Alkor skipasmíðastöðinni í Gdansk í Póllandi en sem kunnugt er ákváðu stjórnendur HB Granda fyrr á þessu ári að láta breyta togaranum í ísfisktogara. Að sögn Gísla Jónmundssonar, skipaeftirlitsmanns, er verkið á áætlun og ef allt gengur að óskum á því að ljúka 12. október nk.

,,Það er búið að taka skipið í þurrkví og verið er að breyta frystilestinni fyrir ísfisk auk þess sem frystivélar og annar búnaður sem tengdist frystilestinni hefur verið fjarlægður. Frystivélarýmið mun nýtast til að stækka lestarrýmið en búið er að brjóta upp steinsteypt gólf úr gömlu frystilestinni. Í stað þess verður sett stálgólf í nýju ísfisklestina, sem hentar betur en steypta gólfið, og hún verður síðan klædd og einangruð. Einnig er búið að fjarlæga allan búnað af vinnsludekki og verður það klætt upp á nýtt“ segir Gísli.

Fyrir utan hina eiginlegu breytingu úr frystitogara í ísfisktogara verður tækifærið notað til að sinna nauðsynlegri viðhaldsvinnu og eins verður skipið sandblásið og málað. Komið verður heim með þann hluta frystibúnaðarins sem talinn er geta nýst í framtíðinni, s.s. í varahluti.

Auk Gísla Jónmundssonar, sem er starfsmaður HB Granda og hefur eftirlit með breytingunum á Helgu Maríu AK, hefur Rúnar Þór Stefánsson, fyrrum útgerðarstjóri félagsins, unnið að undirbúningi og haft umsjón með verkinu í Gdansk.

 

Nýjustu fréttir

Allar fréttir