FréttirSkrá á póstlista

29.07.2013

Mjög góð makrílveiði hjá frystiskipunum

,,Það var mjög góð makrílveiði í grænlensku lögsögunni og hið sama má reyndar segja um veiðarnar hér fyrir vestan landið. Það væri hægur vandi að veiða mun meira en frystigetan skammtar okkur aflann. Við náum að frysta 50 til 55 tonn á sólarhring, höfum alltaf haft nóg fyrir vinnsluna og oft þurft að láta reka góðan hluta úr sólarhringnum,“ segir Kristinn Gestsson, skipstjóri á frystitogaranum Þerney RE.

Þerney er að makrílveiðum vestur af Látragrunni en von er á skipinu til hafnar í Reykjavík þegar líður á vikuna. Kristinn segir að makrílúthald sumarsins hjá áhöfninni á Þerney hafi hafist þegar haldið var frá Reykjavík 12. júlí sl.

,,Við fórum beint vestur í grænlensku lögsöguna en veiðisvæðið var um 240 sjómílur vestur af Garðskaga. Þetta er reyndar víðfemt svæði því í fyrri túrnum okkar, sem stóð í 9 daga, toguðum við á alls 150 mílna svæði frá SV til NA. Aflabrögðin voru mjög góð og við náðum að frysta um 500 tonn af makríl á þessum tíma,“ segir Kristinn en hann upplýsir að síðari veiðiferðin í grænlensku lögsöguna hafi verið ákaflega endaslepp hvað Þerney varðar.

,,Við tókum fyrsta holið sl. miðvikudagskvöld en í hádeginu á fimmtudag fengum við tilkynningu frá Fiskistofu um að öll íslensk skip ættu að hætta veiðum í grænlenskri lögsögu á hádegi sl. föstudag. Við náðum því ekki löngum tíma á veiðum en fengum þó 130 tonna afla. Síðan lá leiðin yfir í íslensku lögsöguna en það tafði okkur frá veiðum að við þurftum að sigla til lands til að ná í veiðieftirlitsmann. Það var gert, síðan byrjuðum við veiðar út af Kolluálnum og nú erum við sem sagt hér heldur norðar,“ segir Kristinn.

Töluverður fjöldi skipa er á makrílveiðum á svipuðum slóðum og Þerney en uppsjávarveiðiskipin eru hins vegar flest að veiðum fyrir austan land. Að sögn Kristins hefur a.m.k. eitt skip farið vestur undir grænlensku lögsögumörkin í von um að makríll hafi gengið inn í íslensku landhelgina að vestan en engar fréttir hefðu borist af því hvort sú tilraun hafi skilað árangri.

 

Nýjustu fréttir

Allar fréttir