FréttirSkrá á póstlista

26.07.2013

Þokkaleg síldveiði en minna um makríl

,,Við vorum að leggja af stað, áleiðis til Vopnafjarðar, með um 300 tonna afla sem fékkst í fjórum holum. Þetta er mest síld en því miður þá er minna um makríl en við vonuðumst eftir. Hlutfall makríls í aflanum er um 35% en þetta er stór og góður fiskur eða allt að 550 grömm að stærð.“

Þetta sagði Albert Sveinsson, skipstjóri á Faxa RE, er rætt var við hann nú um miðjan dag. Sagðist Albert gera ráð fyrir því að vera kominn til Vopnafjarðar um miðnætti í kvöld en um 115 mílna sigling er frá miðunum í Hvalbakshallinu, þar sem Faxi var að veiðum, til Vopnafjarðar.

Uppsjávarveiðiskipin hafa verið að veiðum SA af landinu og einnig SV af Reykjanesi. Að sögn Alberts hafa sum skip fengið ágætan makrílafla á vestursvæðinu en á móti kemur að makrílinn þar er smærri en fyrir austan. Veiðum íslenskra skipa á makríl í grænlenskri lögsögu er nú lokið en þar voru mest frystitogarar að veiðum og voru aflabrögð með ágætum.

,,Við byrjuðum veiðiferðina í Seyðisfjarðardýpinu og tókum þar þrjú hol og tókum svo síðasta holið í Hvalbakshallinu. Aðstæður eru ekkert ólíkar því og á sama tíma í fyrra. Sjávarhitinn er svipaður og það er mikið æti í sjónum,“ segir Albert en að hans sögn hefur verið svarta þoka á miðunum í allri veiðiferðinni sem og í veiðiferðinni á undan.

 

Nýjustu fréttir

Allar fréttir