FréttirSkrá á póstlista

15.07.2013

Makrílveiðar ísfisktogara HB Granda á lokasprettinum

Tveir af þremur ísfisktogurum HB Granda hafa nú lokið við að veiða makrílkvóta ársins. Otto N. Þorláksson RE fór fyrstur til veiða og var með um 130 tonn af makríl og síld í tveimur veiðiferðum. Ásbjörn RE kom til hafnar á Akranesi í morgun úr seinni veiðiferð sinni og var með svipaðan afla. Sturlaugur H. Böðvarsson AK fer til veiðanna í dag og verður makrílkvótinn tekinn í næstu tveimur veiðiferðum.

Að sögn Friðleifs Einarssonar, skipstjóra á Ásbirni, gengu veiðarnar þokkalega að þessu sinni. Í tveimur fyrstu holunum að þessu sinni fékkst hreinn makríll en síðan bar töluvert á íslenskri sumargotssíld sem aukaafla.

,,Við fórum lengst út um 120 mílur vestur af Akranesi. Lóðningar voru ágætar en það er erfitt að hitta á makrílinn án þess að fá líka síld sem meðafla. Ætli hlutfallið af henni hafi ekki verið um 25-30% af heildaraflanum,“ segir Friðleifur.
Sá háttur er hafður á hjá HB Granda að ísfisktogararnir skiptast á að nota Gloríu 800 flottroll frá Hampiðjunni. Friðleifur segir makrílveiðarnar vera ágæta tilbreytingu en nú taki við hefðbundnar botnfiskveiðar í eina viku en síðan verði hálfs mánaðar sumarfrí vegna þess að farið sé að ganga á kvóta skipsins á yfirstandandi fiskveiðiári.

Samkvæmt upplýsingum Þrastar Reynissonar, vinnslustjóra HB Granda á Akranesi, hefur vinnsla á makríl frá ísfiskskipunum gengið ágætlega í sumar en hann segir helsta vandann fólginn í því að flokka síldina frá makrílnum.

,,Við erum búnir að taka á móti um 260 tonnum af makríl og síld í sumar. Hvort tveggja makríllinn og síldin eru heilfryst hjá okkur og vinnslu- og frystigetan er um 40 til 45 tonn á 10-12 tímum,“ segir Þröstur Reynisson.

 

Nýjustu fréttir

Allar fréttir