FréttirSkrá á póstlista

04.07.2013

235 milljón króna aflaverðmæti í síðustu veiðiferð Venusar HF

Frystitogarinn Venus HF kom til hafnar í Reykjavík í gær úr sinni síðustu veiðiferð fyrir HB Granda en fyrr á árinu var ákveðið að fækka frystitogurum félagsins um tvo, leggja Venusi og breyta Helgu Maríu AK í ísfiskskip. Rúmlega 40 ár eru liðin frá því að Venus kom fyrst til landsins, þá undir nafninu Júní HF, og meðal þeirra sem sigldu skipinu heim var núverandi skipstjóri, Guðmundur Jónsson, sem þá var fyrsti stýrimaður á hinum nýja togara.

,,Skipið var smíðað í San Sebastian á Spáni fyrir Bæjarútgerð Hafnarfjarðar (BÚH) og það kom til heimahafnar í fyrsta sinn þann 3. júní árið 1973. Togarinn fékk nafnið Júní og var þriðja skip félagsins með því nafni. Til aðgreiningar frá hinum tveimur var það oft nefnt stóri Júní,“ segir Guðmundur í samtali við heimsíðu HB Granda en að hans sögn var hann í fjögur ár á Júní eða fram til ársins 1977 er hann fór yfir á annan BÚH togara, Maí HF.

Árið 1984 var nafninu breytt í Venus HF og fljótlega var hugað að því að breyta skipinu í frystitogara, sem var gert í Danmörku árið 1986.

,,Árið 1994 var kveikt í skipinu þar sem það lá í Hafnarfjarðarhöfn. Ég trúi a.m.k. ekki öðru en að um íkveikju hafi verið að ræða, þótt aðrir kunni að hafa aðrar hugmyndir um eldsupptökin,“ segir Guðmundur en í kjölfar þessa atviks var ákveðið að láta endurbyggja skipið í Póllandi og var það gert árið 1996.

,,Skipið var lengt um níu metra og endurnýjað nánast frá grunni. Það eina, sem eftir er í dag frá því að skipið kom fyrst til landsins, er ytra byrðið, stálið sem var í hinum gamla hluta skipsskrokksins.“

Guðmundur segist ekki vita hvort eða þá hvaða hlutverk Venus fái í framtíðinni en það sé ljóst í sínum huga að togarinn sé betra skip en mörg þeirra sem gerð eru út til veiða á Íslandsmiðum um þessar mundir.

Í síðustu veiðiferð Venusar var siglt hringinn í kringum landið. Aflinn upp úr sjó nam 845 tonnum, sem jafngildir 19.200 kössum af frystum afurðum, og aflaverðmætið er um 235 milljónir króna.

 

Nýjustu fréttir

Allar fréttir