FréttirSkrá á póstlista

02.07.2013

Nýir stjórnendur

HB Grandi hefur sett upplýsingar um nýja stjórnendur á heimasíðu félagsins. 

Svavar Svavarsson

Svavar Svavarsson er nýr yfirmaður viðskiptaþróunar hjá HB Granda enda öllum hnútum kunnugur innan fyrirtækisins. Hann starfaði hjá Landsbanka Íslands áður en hann hóf störf hjá fyrirrennurum HB Granda, Bæjarútgerð Reykjarvíkur og Ísbirninum frá árinu 1975.

Svavar er fisktæknir frá Fiskvinnsluskólanum í Hafnafirði. Hann var um langt skeið framleiðslustjóri hjá fyrirtækinu og síðar markaðsstjóri frá árinu 2005.

Brynjólfur Eyjólfsson

Brynjólfur Eyjólfsson er nýr markaðsstjóri HB Granda. Hann býr að drjúgri reynslu af markaðsmálum bæði innan lands og utan. Brynjólfur hefur unnið að markaðsrannsóknum, verkefnastjórn, viðskipta- og fyrirtækjaráðgjöf og starfaði sem markaðsstjóri PwC áður en hann hóf störf við markaðsrannsóknir hjá HB Granda árið 2012. Brynjólfur hefur jafnframt kynnst gæðamálum og rannsóknum í gegnum störf sín hjá Hafrannsóknarstofnun og Rannsóknarstofnun fiskiðnaðarins.

Brynjólfur er með B.Sc. gráðu í líffræði frá Háskóla Íslands, M.Sc. í sjávarútvegsfræðum frá viðskipta- og hagfræðideild Háskóla Íslands og M.Sc. í alþjóðaviðskiptum frá norska viðskiptaháskólanum NHH

Ingimundur Ingimundarson

Ingimundur Ingimundarson er nýr útgerðarstjóri uppsjávarskipa hjá HB Granda. Ingimundur vann hjá Tryggingum hf. áður en hann gerðist háseti á Svaninum RE og síðar stýrimaður og afleysingarskipstjóri ásamt því að sjá um bókhald og uppgjör skipsins. Ingimundur var framkvæmdastjóri Hafnarmjöls í Þorlákshöfn skömmu fyrir aldamót en tók til starfa hjá HB Granda árið 2005.

Ingimundur er með verslunarpróf frá Verslunarskóla Íslands og 3. stigs réttindi frá Stýrimannaskólanum í Reykjavík.

Birkir Hrannar Hjálmarsson

Birkir Hrannar Hjálmarsson hefur tekið við sem vinnslustjóri HB Granda í Reykjavík. Á námsárunum sótti Birkir sjóinn að sumrinu á ísfiskskipum og frystitogurum ÚA og Samherja en vann hjá fiskverkuninni Hafbliki ehf. með skólanum að vetrinum. Hann starfaði sem sérfræðingur hjá Verðlagsstofu skiptaverðs áður en hann hóf störf sem rekstrarstjóri togara HB Granda árið 2004 þar sem hann hefur starfað til dagsins í dag.

Birkir er stúdent frá náttúrufræðideild Verkmenntaskólans á Akureyri með B.Sc gráðu í sjávarútvegsfræðum frá Háskólanum á Akureyri.

Garðar Ágúst Svavarsson

Garðar Ágúst Svavarsson, nýr deildarstjóri uppsjávarsviðs hjá HB Granda, hefur sinnt ýmsum störfum bæði til sjós og lands. Hann hóf störf hjá Granda árið 1999, fyrst í sumarafleysingum þar sem hann kom að flestum þáttum vinnslunnar í Norðurgarði, umsjón, móttöku, verkstjórn og útreikningum. Samhliða námi leysti Garðar af sölustjóra í markaðsdeild fyrirtækisins allt fram að útskrift árið 2007 er hann tók við starfi sölustjóra fiskimjöls og lýsis. Hann hefur frá sumrinu 2010 sinnt sölu frystra sjávarafurða, fiskimjöls og lýsis.

Garðar er stúdent af náttúrufræðibraut MS og sjávarútvegsfræðingur frá Háskólanum á Akureyri.

Loftur Bjarni Gíslason

Loftur Bjarni Gíslason er nýr útgerðastjóri ísfiskiskipa HB Granda. Loftur hóf starfsferilinn sem messagutti á Hval 8 og síðar á Venusi HF þar sem hann var háseti áður en hann fór að vinna hjá HB Granda árið 2005. Til að byrja með starfaði hann að sumrinu sem verkstjóri yfir næturvaktinni í Norðurgarði og síðar sem rekstrarstjóri togara í afleysingum. Frá árinu 2007 hefur Loftur verið fastráðinn hjá útgerðardeild HB Granda.

Loftur er stúdent frá Fjölbrautarskólanum í Garðabæ en lagði stund á sjávarútvegsfræði við Háskólann á Akureyri þaðan sem hann útskrifaðist árið 2007.

Torfi Þ. Þorsteinsson

Torfi Þ. Þorsteinsson er nýr deildarstjóri botnfisksviðs HB Granda. Torfi starfaði um skeið hjá tæknideild Rannsóknastofnunar fiskiðnaðarins áður en hann réðst til starfa sem vinnslustjóri hjá BÚR og síðar Granda. Hann hefur í gegnum störf sín kynnst ýmsum þáttum fyrirtækisins, m.a. sem framleiðslu- og sölustjóri frystiskipa, framkvæmdastjóri Faxamjöls og deildarstjóri uppsjávarveiða- og vinnslu HB Granda. Torfi hefur í seinni tíð starfað sem framleiðslustjóri botnfiskvinnslu HB Granda.

Torfi er fisktæknir frá Fiskvinnsluskólanum og menntaður í Rekstrar- og viðskiptafræði hjá Endurmenntun Háskóla Íslands.

Ingólfur Steingrímsson

Ingólfur Steingrímsson er nýr starfsmaður á Fjármálasviði. Hann mun veita forstöðu Rekstrareftirliti, innkaupum og öryggissmálum. Hann hefur góða reynslu úr atvinnulífinu. Ingólfur hefur starfað á endurskoðunarskrifstofu, hjá Olíufélaginu hf. sem deildarstjóri Rekstraeftirlits og síðar sem deildarstjóri Reikningshalds og eftirlits hjá N1. Síðustu tvö árin starfaði hann sem fjármálastjóri Festa lífeyrissjóðs. Hann hefur einnig starfað sjálfstætt við bókhald og framtalsgerð.

Ingólfur er með B.Sc. gráðu í viðskiptafræði frá Háskólanum á Bifröst og lauk síðan meistaragráðu í alþjóðaviðskiptum frá sama skóla.

Nýjustu fréttir

Allar fréttir