FréttirSkrá á póstlista

27.06.2013

Makrílveiðar frystitogara HB Granda fara vel af stað

Frystitogarar HB Granda, Örfirisey RE og Þerney RE, komu til hafnar í Reykjavík í vikunni með frystar afurðir sem landað var beint í hina nýju frystigeymslu félagsins, Ísbjörninn á Norðurgarði. Örfirisey var með afla sem svarar til 480 tonna af fiski upp úr sjó og Þerney var með eilítið meira eða tæp 500 tonn. Uppistaðan í aflanum var bolfiskur en einnig voru skipin með makríl og síld.

Steindór Sverrisson, útgerðarstjóri frystitogara HB Granda, segir að í ár sé makrílkvóti félagsins fyrir frystiskipin um 4.200 tonn. Ákveðið hafi verið að Þerney og Örfirisey sjái um að veiða kvótann enda séu þau best útbúin til þess verkefnis.

,,Þerney hóf makrílveiðar í byrjun síðustu viku og Örfirisey tveimur dögum síðar. Veiðarnar hófust í Skerjadýpi en síðan færðu skipin sig austur í Háfadýpi og Grindavíkurdýpi. Framan af var makríllinn frekar smár en síðan fékkst stærri og betri makríll austar á veiðislóðinni,“ segir Steindór en að hans sögn fékkst einnig íslensk sumargotssíld sem meðafli. Þerney var alls með um 250 tonn af makríl og 35 tonn af síld og afli Örfiriseyjar var 183 tonn af makríl og 31 tonn af síld. Auk þess voru bæði skip með bolfiskafla sem fékkst áður en makrílveiðarnar hófust. Hvort tveggja makríll og síld eru heilfryst um borð í togurunum.

Að sögn Steindórs nam afli togaranna hvors um sig rúmlega 19.000 kössum af blönduðum afla eða samtals um 39.700 kössum og var þeim afla landað og hann flokkaður í Ísbirninum á aðeins tveimur dögum.

,,Þetta hefðum við ekki getað áður og maður er betur og betur að átta sig á því hve tilkoma þessarar nýju frystigeymslu og flokkunaraðstöðu hefur mikið að segja fyrir HB Granda,“ segir Steindór Sverrisson.

 

Nýjustu fréttir

Allar fréttir