FréttirSkrá á póstlista

20.06.2013

Síðasta veiðiferð Helgu Maríu AK sem frystitogari

Í gær var lokið við að landa fyrsta farminum af frystum afurðum í Ísbjörninn, hina nýju og glæsilegu frystigeymslu HB Granda á Norðurgarði. Afurðirnar voru úr síðustu veiðiferð Helgu Maríu AK sem frystitogara en skipinu verður siglt utan til Póllands um næstu helgi þar sem því verður breytt í ísfisktogara. Þar með er 25 ára farsælum ferli skipsins sem frystitogara lokið.

Að sögn Steindórs Sverrissonar, útgerðarstjóra frystiskipa HB Granda, var afli Helgu Maríu um 8.000 kassar en það svarar til um 190 tonna af afurðum eða um 275 tonnum af fiski upp úr sjó. Uppistaða aflans var þorskur og karfi, auk grálúðu og minna magns af öðrum fisktegundum.

,,Við byrjuðum að landa úr skipinu um hádegi og lukum því verki sólarhring síðar. Það er óhætt að segja að tilkoma nýju frystigeymslunnar er sannkölluð bylting fyrir okkur, a.m.k. þegar löndun á afla er annars vegar. Allar afurðir fara beint inn í flokkunarrýmið og að lokinni flokkun og röðun á bretti fara afurðirnar beint í frysti. Í ágúst nk. er von á nýrri pökkunarvél en hennar hlutverk er að rétta brettin af og plasta,“ segir Steindór Sverrisson.

Sem fyrr segir verður Helgu Maríu siglt utan um næstu helgi og er áætlað að breytingin yfir í ísfisktogara taki tæpa fjóra mánuði. Eftir breytinguna mun verða rými fyrir 640 kör af fiski í kælilest skipsins en það samsvarar um 180 tonnum af fiski upp úr sjó. Á þilfari verður svo kælirými fyrir um 50 kör af lifur og öðrum aukaafurðum.

 

Nýjustu fréttir

Allar fréttir