FréttirSkrá á póstlista

02.06.2013

Nýja frystigeymslan fékk nafnið Ísbjörninn

Ný frystigeymsla HB Granda á Norðurgarði var vígð í dag og var henni gefið nafnið Ísbjörninn. Efnt var til hugmyndasamkeppni meðal starfsmanna félagsins um nafnið. Vinningstillagan var komin frá sjö þeirra. Var það samdóma álit dómnefndar að nafnið væri þjált, lýsandi fyrir þá starfsemi sem fram á að fara í húsinu og með góða skírskotun til fortíðarinnar en Ísbjörninn í Reykjavík, sem var í útgerð og fiskvinnslu á sínum tíma, er einn af forverum þess félags sem nú er þekkt sem HB Grandi.

Talið er að um 1.500 manns hafi verið viðstaddir vígslu frystigeymslunnar og að ekki færri en 15.000 manns hafi lagt leið sína á Norðurgarð í dag en þar var vegleg hátíðardagskrá á vegum HB Granda í tilefni sjómannadagsins. Vilhjálmur Vilhjálmsson, forstjóri HB Granda, bauð gesti velkoma við vígsluathöfnina en meðal þeirra voru forseti Íslands, Hr. Ólafur Ragnar Grímsson, Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra og Dagur B. Eggertsson, formaður borgarráðs Reykjavíkur. Starfsmenn félagsins og þeir, sem unnu við byggingu frystigeymslunnar auk fjölskyldna þeirra, voru einnig meðal boðsgesta. 

Vitnisburður um sóknarhug

Forseti Íslands flutti ávarp við vígsluna og fjallaði m.a. um áfangana í baráttu Íslendinga fyrir yfirráðum yfir fiskimiðunum við landið. Þar hefðu sjómenn, fiskvinnslufólk og fyrirtæki í sjávarútvegi verið burðarásar í þróun þeirrar velferðar sem Íslendingar njóti nú. HB Grandi, sem fékk Úflutningsverðlaun forsetaembættisins fyrr á þessu ári, eða fyrrirennarar þess félags, hafi verið þar í fararbroddi. Bygging frystigeymslunnar á aðeins nokkrum mánuðum væri vitnisburður um sóknarhug.

Vilhjálmur Vilhjálmsson bauð gesti velkomna og sagði það frábært að geta vígt frystigeymsluna á sjálfan sjómannadaginn og óskaði hann sjómönnum til hamingju með daginn. Hann sagði það hafa verið sérstaklega gaman að horfa á þetta mikla og glæsilega mannvirki rísa á jafnskömmum tíma og raun bæri vitni eða á aðeins rúmlega sex mánuðum.

,,Hér hefur farið saman þekking og reynsla auk frábærs samstarfs allra þeirra fjölmörgu sem að verkinu hafa komið. Ég ætla ekki að fara að telja upp alla þá aðila sem hér hafa lagt hönd á plóg en finnst þó sérstök ástæða til að nefna Íslenska aðalverktaka sem sáu um bygginguna og völdu af kostgæfni undirverktaka með sérþekkingu á hinum ýmsu sviðum. Auk þeirra sá Kælismiðjan Frost um að koma upp frystikerfinu en við þá höfum við átt farsælt samstarf.

Bygging sem þessi rís ekki á jafn áberandi stað nema um hana sé sátt. Það er mér ánægja að geta skýrt frá mjög góðri samvinnu okkar við borgaryfirvöld og Faxaflóahafnir. Þar vil ég sérstaklega nefna Hjálmar Sveinsson sem af áhuga sínum einum saman var okkur m.a. einstaklega hjálplegur við val á listaverki sem mun rísa hér við SA gafl frystigeymslunnar.

Síðar í ræðu sinni vék Vilhjálmur að samkeppninni um nafn á frystigeymsluna sem efnt var til meðal starfsmanna. Hann sagði að meira en 400 tillögur með alls 305 nöfnum hefðu borist til dómnefndarinnar og það sýndi glöggt þann mikla áhuga sem starfsfólkið hefði á starfsemi félagsins.

700 þúsund krónur til sjö starfsmanna

,,Það reyndust sjö um að leggja til nafnið sem varð fyrir valinu. Ég ætla að biðja þau um að koma hér upp á svið en einn þeirra, Hannes Páll Víglundsson, er fjarri góðu gamni. Þau sem hér eru stödd eru Gestur Ingvi Kristinsson, Guðjón Antoníusson, Jón Páll Gestsson, Katrín Kristjánsdóttir, Sæmundur Árni Hermannsson og Valgerður Sveinsdóttir. Við kynningu á samkeppninni var sagt að dregið yrði úr þeim tillögum sem kæmu fram með nafnið sem valið yrði. Í ljósi mikils áhuga og þátttöku ákváðum við að þau sem komu með tillögu um nafnið fengju öllu að njóta verðlaunanna og fá þau því 100.000 kr hvert. Nafnið sem frystigeymslunni er gefið er Ísbjörninn og eigum við því láni að fagna að hafa fengið séra Hjálmar Jónsson Dómkirkjuprest til að blessa Ísbjörninn okkar,“ sagði Vilhjálmur en í lok ræðunnar sló hann á léttari strengi.

Tóku ómakið af borgarstjóranum

,,Í framhaldi af umræðu okkar um gott samstarf má geta þess að nú hefur HB Grandi tekið að sér að uppfylla kosningaloforð Jóns Gnarrs borgastjóra um ísbjörn í Reykjavík. Ísbjörninn er sem sagt kominn,“ sagði Vilhjálmur Vilhjálmsson.

 

Nýjustu fréttir

Allar fréttir