FréttirSkrá á póstlista

01.06.2013

Á sjó í hálfan sjötta áratug

Það hefur varla farið fram hjá neinum að sjómannadagurinn verður haldinn hátíðlegur á morgun. Liðin eru 75 ár síðan fyrst var haldið upp á þennan dag í Reykjavík og á Ísafirði og á undanförnum árum hefur sífellt meira verið lagt í hátíðarhöldin. Nægir í því sambandi að nefna hátíðardagskrárnar Hátíð hafsins í Reykjavík og Sjóarinn síkáti í Grindavík en á báðum stöðum, s.s. víðar um landið, eru í boði fjölbreyttar skemmtidagskrár fyrir almenning nú um helgina. Hér á heimasíðu HB Granda hefur verið rætt við starfandi sjómenn á skipum félagsins í tilefni af sjómannadeginum en að þessu sinni er það fyrrum sjómaður sem hefur orðið.

Hann er fæddur og uppalinn á Tálknafirði, fimm árum eldri en sjómannadagurinn, heitir Þórður Guðlaugsson og starfaði síðast um árabil sem yfirvélstjóri á Otto N. Þorlákssyni RE þar til hann þurfti að láta af störfum 70 ára gamall. Tíðindamaður heimsíðunnar náði tali af eiginkonu Þórðar upp úr hádegi sl. fimmtudag en þá voru þau hjónin á leið út að Látrabjargi en síðan var ferðinni heitið til æskuslóða Þórðar á Tálknafirði þar sem þau eiga hús. Bundið var fastmælum að þráðurinn yrði tekinn upp að nýju um kvöldmatarleytið sama dag. Það gekk eftir og Þórður svaraði símtalinu. Fyrsta spurningin lá beint við. Hvenær byrjaði þessi aldraði heiðursmaður til sjós?

,,Það var árið 1947 eða sama ár og ég fermdist. Þá töldust menn vera orðnir fullorðnir og hæfir til að sstunda sjómennsku. Ég byrjaði á snurvoðarbáti, sem gerður var út frá Patreksfirði, og síðar fór ég yfir á sams konar bát sem gerður var út frá Tálknafirði. 18 ára gamall fór ég að vinna í vélsmiðjunni á Patreksfirði með það að markmiði að verða vélvirki. Þá þurftu menn að hafa starfsreynslu til að komast inn í Vélskóla Íslands og þangað fór ég síðan og útskrifaðist vorið 1958,“ segir Þórður en í stað þess að fara aftur norður á Vestfirði að loknu námi ákvað hann að ílengjast í Reykjavík.

,,Ég fékk vinnu sem annar vélstjóri á síðutogaranum Þorkeli mána RE sem Bæjarútgerð Reykjavíkur (BÚR) gerði þá út. Vel að merkja þá var ekkert til í þá daga sem heitir yfirvélstjóri þannig að ég var næstráðandi í vélarrúminu til að byrja með en ég tók við sem fyrsti vélstjóri um áramótin 1958/59. Ég var í átta ár á Þorkeli goða en þá ákvað ég að fara í land. Ástæðan var aðallega sú að ég var kominn með fjölskyldu, þrjú börn, og mér fannst að ég þyrfti að sinna henni betur. Ég fékk vinnu sem vélstjóri í Mjólkárvirkjun í Arnarfirði og þar vann ég fram til ársins 1969. Þegar ég hætti þar var ekki um auðugan garð að gresja á vinnumarkaðnum. Það var kreppa á Íslandi og um þetta leyti fluttu mjög margir iðnaðarmenn til Svíþjóðar þar sem þeir fengu góða vinnu í borgum eins og Gautaborg og Málmey. Ég var hins vegar svo heppinn að fá vinnu sem vélstjóri á Þormóði goða RE sem var einn af síðutogurunum sem BÚR gerði út á þessum árum,“ segir Þórður en alls var hann í rúm 10 ár á síðutogurunum. Nýir tímar voru hins vegar framundan.

Spánartogararnir
,,Um þetta leyti var verið að smíða þrjá skuttogara fyrir BÚR í San Sebastian á Spáni. Bjarni Benediktsson RE var fyrstur þeirra, en þar fékk ég vinnu sem fyrsti vélstjóri árið 1981, en hinir voru Ingólfur Arnarson RE og Snorri Sturluson RE. Þessi skip hafa dugað vel og betur en það. Ingólfur Arnarson fékk síðar nafnið Freri RE, Bjarni Benediktsson fékk nafnið Mánaberg ÓF og síðast var Snorri Sturluson gerður út frá Vestmannaeyjum og fékk þá einkennisstafina VE. Þá má ekki gleyma því að Venus HF, sem HB Grandi gerir nú út, var í þessum hópi Spánartogara en honum verður lagt í sumar.“

Af Bjarna Benediktssyni lá leið Þórðar yfir á Ottó N. Þorláksson RE sem HB Grandi gerir út. Sá togari var þá nýr, smíðaður í Stálvík í Hafnarfirði, en þar var Þórður yfirvélstjóri þar til að starfsaldrinum lauk.

,,Ég var fullur af starfsorku en mátti ekki vinna lengur. Annars var þetta orðið gott hjá mér og ég kvarta ekki yfir því að hafa ekki nóg að gera. Ég hef getað sinnt börnunum og barnabörnunum betur ef oftast áður. Heilsan er góð, kollurinn er skýr og ég tel mig enn vera í fullu fjöri.“

Þórður segist aldrei hafa verið neinn sérstakur sjómannadagsmaður en hann hafi tekið þátt í hátíðarhöldum í tilefni dagsins með fjölskyldu sinni í áranna rás.

,,Nú orðið er mikil dagskrá vegna sjómannadagsins á Patreksfirði en slík hátíðarhöld hafa verið aflögð á Tálkafirði og í Bíldudal vegna fámennis. Ég hef tvisvar sinnum verið viðstaddur hátíðarhöldin á Patreksfirði og hver veit nema að við hjónin verðum þar þegar sjómannadagurinn verður haldinn hátíðlegur,“ segir Þórður Guðlaugsson.

 

Nýjustu fréttir

Allar fréttir