FréttirSkrá á póstlista

30.05.2013

HB Grandi á Vopnafirði á grænni grein

Starfsstöð HB Granda á Vopnafirði voru í gær veitt verðlaunin ,,Á grænni grein“ en það er endurvinnslufyrirtækið Hringrás sem stendur fyrir þeim. Fyrirtækið sérhæfir sig í flokkun og endurvinnslu á úrgangi, sem til fellur hjá fyrirtækjum, og var fyrir skemmstu að verðlauna þá viðskiptavini sem þótt hafa skarað fram úr og sýnt frábæra frammistöðu í þessum efnum. Verðlaunin eru aðeins veitt fyrirtækjum sem þykja vera fyrirmynd annarra í umhverfismálum.

Það var Ágústa Þóra Jónsdóttir, markaðs- og sölustjóri Hringrásar, sem veitti verðlaunin en við þeim tók Jósep Hjálmar Jósepsson, starfsmaður HB Granda á Vopnafirði. Í máli Ágústu Þóru við þetta tækifæri kom fram að verðmæti felist í flokkun úrgangs og tilgangur hennar væri að minnka það magn sem fer til brennslu og urðunar. Þau fyrirtæki sem flokki úrgang búi til verðmæti því flokkaður úrgangur sé hráefni sem hægt sé að nýta til margs konar endurvinnslu. Það útheimti metnað og vinnu að flokka úrgang sem óhjákvæmlega fylgir starfsemi fyrirtækja. Mörg fyrirtæki standi sig vel í flokkun, en sum hafi sýnt einstaklega mikinn metnað og náð frábærum árangri. Þau væru fyrirmynd annarra í umhverfismálum. Fyrir vikið væri umhverfi þeirra, samfélagið og náttúran sjálf betur sett.

Að sögn Gísla Sigmarssonar tæknistjóra hefur starfsfólk HB Granda á Vopnafirði lagt metnað sinn í að flokka allan úrgang. Með því væri hægt að minnka það sorp sem færi til urðunar því hlutfall endurvinnsluefna í heildarúrgangi sé mjög hátt.

 

Nýjustu fréttir

Allar fréttir