FréttirSkrá á póstlista

27.05.2013

Vegleg hátíðarhöld og vígsla nýrrar frystigeymslu á Norðurgarði

Sjómannadagurinn verður haldinn hátíðlegur um land allt nk. sunnudag. Í Reykjavík verður haldin Hátíð hafsins á Granda og annars staðar á hafnasvæðinu en hátíðarhöldin fara fram á vegum Faxaflóahafna. Í ár má segja að haldið sé upp á tvenn stórafmæli í Reykjavík. 100 ár eru liðin frá því að framkvæmdir hófust við Reykjavíkurhöfn og 75 áru liðin frá því að sjómannadagurinn var fyrst haldinn hátíðlegur í Reykjavík og á Ísafirði.

HB Grandi er einn af aðalstyrktaraðilum Hátíðar hafsins líkt og mörg undanfarin ár. Félagið hefur jafnan boðið starfsmönnum, fjölskyldum þeirra, gestum og gangandi í hátíðarkaffi í húsakynnum félagsins sem og upp á fjölskylduskemmtun á starfsvæði þess á Norðurgarði og þar verður engin breyting á í ár. Þvert á móti verður dagskráin umfangsmeiri og veglegri en nokkru sinni fyrr. Hátíðahöldin á Norðurgarði verða við nýja frystigeymslu félagsins sem verður formlega vígð kl. 13-14 á sjómannadaginn. Við sama tækifæri verður greint frá úrslitum í samkeppni, sem efnt var til meðal starfsmanna HB Granda, um nafn á nýju frystigeymsluna. Meðal boðsgesta verða þeir sem komu að byggingu frystigeymslunnar, starfsmenn félagsins og fjölskyldur þeirra.

Í framhaldi af vígslunni er almenningi boðið til fjölskylduhátíðar þar sem boðið verður upp á skemmtiatriði og einnig verður leiksvæði í anda sjávarútvegsins fyrir yngri kynslóðina. Boðið verður upp á kaffi og meðlæti sem fyrr. Dagskrá hátíðarinnar á Norðurgarði, sem Atli Þór Albertsson stýrir, er sem hér segir:
14.00 - Latibær: Solla Stirða & Íþróttaálfurinn
14.30 - Skoppa & Skrítla
15.00 - Eyþór Ingi og Eurovisionhópurinn
15.30 - Sveppi & Villi
16.00 Sirkus Íslands

 

Nýjustu fréttir

Allar fréttir